Erlent

Hvattir til að segja rétt frá

Fundur í róm Páfi á fundi með írskum biskupum.
fréttablaðið/AP
Fundur í róm Páfi á fundi með írskum biskupum. fréttablaðið/AP

Benedikt sextándi páfi hvatti tuttugu og fjóra írska biskupa, sem ræddu við hann í Páfagarði í gær og í fyrradag, til þess að sýna hugrekki og koma heiðarlega fram varðandi framferði barnaníðinga í röðum presta kaþólsku kirkjunnar á Írlandi.

Sjálfur sagðist páfi vera æfur vegna málsins, sem komst í hámæli fyrir nokkrum árum. Í yfirlýsingu frá Páfagarði er það kallað „viðurstyggilegur glæpur“ og „alvarleg synd sem hneykslar guð“ að níðast kynferðislega á börnum.

Páfagarður segir þó að brottrekstur biskupanna hafi ekki komið til umræðu á fundinum, þrátt fyrir að fulltrúar fórnarlamba barnaníðinganna hafi hvatt páfa til að reka þá biskupa sem hafa hylmað yfir með hinum seku prestum.

Á Írlandi ríkir veruleg reiði í garð fulltrúa páfa á Írlandi, Giuseppe Leanza, sem hafi ekki viljað mæta hjá utanríkismálanefnd írska þingsins til að svara spurningum nefndarinnar um málið. Páfi varði þessa afstöðu Leanzas og sagði það ekki venju að fulltrúar páfa sitji fyrir svörum hjá þingnefndum. Leanza hefur engu svarað bréfum frá nefndinni, sem boðaði hann á fund.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×