Viðskipti innlent

Iceland stendur undir tæpum fjórðung af Icesave

Eignarhlutur Íslendinga í bresku verslunarkeðjunni Iceland einn og sér stendur undir tæplega fjórðungi af Icesaveskuldinni. Samkvæmt útreikningum byggðum á síðasta ársuppgjöri Iceland er eignarhluturinn 750 milljón punda virði en Icesave skuldin í heild nemur 3,2 milljörðum punda.

Eignarhlutur Íslendinga í Iceland skiptist þannig að 40% eru í eigu skilanefndar Landsbankans, 29% í eigu Styttu og raunar á leið í hendur skilanefndarinnar og skilanefnd Glitis heldur á 10% hlut. Samtals nemur eignarhluturinn því 79%.

Við að reikna út verðmæti fyrirtækis eru til tvær þumalputtreglur til að meta það gróflega. Annarsvegar má margfalda hagnað með stuðlinum 7 til 10 og hinsvegar má margfalda EBITDA með stuðlinum 6. Í tilviki Iceland kemur svipuð tala upp í báðum tilvikum eða um 960 milljónir punda miðað við tölur í síðasta ársuppgjöri Iceland.

Á síðasta reikningsári Iceland sem lauk í mars á síðasta ári nam hagnaður keðjunnar fyrir skatta tæpum 114 milljónum punda af veltu sem nam 2,1 milljarði punda. EBITDA á því ári nam 163 milljónum punda. Ef notuð er miðtala af stuðlum fyrir verðmat samkvæmt hagnaði er verðmæti keðjunnar um 960 milljónir punda. Ef notaður er EBITDA stuðulinn er verðmætið 978 milljónir punda. Og 79% af 960 milljónum punda eru rúmlega 758 milljónir punda.

Tekið skal fram að fyrrgreint ársuppgjör var með því besta í sögu Iceland og fréttir eru um að aukin samkeppni á lágvörumarkaðinum í Bretlandi gæti leitt til þess að fyrrgreindar hagnaðar og EBITDA tölur verði ekki eins hagstæðar hjá Iceland í uppgjörinu sem birt verður í þessum mánuði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×