Erlent

Dularfulli aðdáandinn lét ekki sjá sig

Óli Tynes skrifar
Gröf Poes; þrjár rósir og hálf koníaksflaska.
Gröf Poes; þrjár rósir og hálf koníaksflaska.

Í sextíu ár hefur óþekktur aðdáandi heimsótt gröf bandaríska rithöfundarins Edgars Allan Poe á fæðingardegi hans og skilið eftir sig þrjár rósir og hálfa koníaksflösku.

Nítjánda janúar síðastliðinn lét hann ekki sjá sig í kirkjugarðinum í Baltimore.

Hópur Poe aðdáenda sem fylgdist með gröfinni úr fjarlægð var gráti næst af vonbrigðum. Dularfulli gefandinn hefur alltaf heimsótt gröfina í myrkri fyrir klukkan hálf sex að morgnu, til þess að eiga ekki á hættu að rekast á aðra gesti.

Aðrir Poe aðdáendur sem hafa komið til þess að fylgjast með athöfninni hafa ekki reynt að nálgast hann.

Jeff Jerome er forstöðumaður minjasafns um Poe sem er á heimili rithöfundarins í Baltimore. Hann sagðist ekki kunna neina skýringu á því að dularfulli aðdáandinn skyldi ekki láta sjá sig. Ástæðurnar gætu verið fjölmargar.

Hann gæti til dæmis verið með flensu eða eitthvað þvíumlíkt.

Það er náttúrlega annar möguleiki fyrir hendi og óþarfi að vera með tepruskap þar sem Poe á í hlut. Aðdáandinn gæti náttúrlega sjálfur verið dauður, eftir sextíu ára næturgöngur um kirkjugarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×