Innlent

„Hann segir ekki neitt af viti, alveg eins og kelling"

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður og formaður fjárlaganefndar
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður og formaður fjárlaganefndar
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður og formaður fjárlaganefndar, segir í pistli á heimasíðu Víkurfrétta vera hissa og reið yfir ummælum Ásmundar Friðrikssonar, bæjarstjóra í Garði, sem hann hafði um Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra á opnum fundi í Stapa síðastliðinn fimmtudag.

„Hann kemur hingað og segir ekki neitt af viti, alveg eins og kelling," sagði Ásmundur bæjarstjóri á fyrrnefndum fundi. Oddný segir að þessi ummæli vera niðrandi og vekji upp sterkar tilfinningar „og gefa ríkt tilefni til að konur láti í sér heyra."

Hún segir orðin koma aðeins nokkrum dögum eftir að þúsundir kvenna um allt land hafi minnt á nauðsyn jafnréttis kynjanna fyrir velferð, atvinnuuppbyggingu, hagvöxt, frið og gott samfélag.

„Þarf virkilega að minna Ásmund á það stóra hlutverk sem karlar léku við að koma okkur í þau vandræði sem við glímum nú við og var meðal annars tilefni fundarins í Stapa? Þar hefði kannski farið betur ef fleiri hefðu hagað sér eins og kerlingar.

Mér finnst að Ásmundur eigi að biðja konur opinberlega afsökunar og að sjálfstæðismenn í Garði eigi að sjá til þess að bæjarstjórinn sem starfar á þeirra ábyrgð láti ekki fordóma gagnvart konum byrgja sér sýn.

Talsmenn Suðurnesjamanna verða að sýna ábyrgð í orðum og athöfnum, ekki síst nú þegar kallað er eftir breiðu samstarfi við lausn þess mikla vanda sem við íbúar Suðurnesja búum við."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×