Erlent

Breskir hermenn brutu lög

Breskur hermaður þrífur í kaþólskan mótmælanda 30. janúar 1972 á Norður-Írlandi þegar breskir hermenn drápu þrettán kaþólska mótmælendur.
Breskur hermaður þrífur í kaþólskan mótmælanda 30. janúar 1972 á Norður-Írlandi þegar breskir hermenn drápu þrettán kaþólska mótmælendur. nordicphotos/AFP
Nokkrir fyrrverandi breskir hermenn verða væntanlega dregnir fyrir dómara á Norður-Írlandi vegna atburðanna í borginni Londonderry sunnudaginn 30. janúar árið 1972. Þann dag beittu breskir hermenn skotvopnum á hóp kaþólskra mótmælenda með þeim afleiðingum að þrettán manns létu lífið.

Rannsóknarnefnd breska þingsins hefur undanfarin tólf ár rannsakað þessa atburði og sendir frá sér skýrslu um niðurstöður sínar á þriðjudaginn.

Breska dagblaðið Guardian segist hafa heimildir fyrir því að nefndin líti svo á að sum þessara dauðsfalla verði að teljast ólögleg manndráp, sem hermennirnir hafi enga réttlætingu haft fyrir að fremja. Þar með eykst mjög þrýstingur á saksóknara á Norður-Írlandi að draga þessa bresku hermenn fyrir rétt.

Atburðirnir þennan dag, sem síðan hefur verið kallaður „blóðugi sunnudagurinn", efldu mjög baráttu norður-írskra aðskilnaðarsinna gegn bresku stjórninni svo aukin harka færðist í átökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×