Viðskipti innlent

Heildarútlán ÍLS lækkuðu um 24% milli mánaða

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) námu rúmum 1,6 milljarði króna í febrúar . Þar af voru tæplega 1,4 milljarðar króna vegna almennra lána og um 250 milljónir vegna annarra lána. Heildarútlán sjóðsins lækkuðu því um 24% á milli mánaða. Meðalútlán almennra lána voru um 9 milljónir króna í febrúar sem er tæplega 22% hækkun frá fyrra mánuði.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu ÍLS fyrir febrúar. Þar segir að þann 22. febrúar hélt Íbúðalánasjóður fyrsta útboð íbúðabréfa á árinu 2010.

Í kjölfar útboðsins lækkuðu útlánavextir sjóðsins um 0,05% og tók vaxtabreytingin gildi þann 23. febrúar. Útlánavextir íbúðalána eftir vaxtabreytinguna eru því 4,50% með uppgreiðsluákvæði og 5,00% án uppgreiðsluákvæðis.

Stjórn Íbúðalánasjóðs lagði til við félags-og tryggingamálaráðherra að vaxtaálag sjóðsins yrði hækkað um 0,20% og féllst ráðherra á þá tillögu. Við breytinguna verður vaxtaálag vegna rekstrar 0,30%, vegna útlánaáhættu 0,35% og vegna uppgreiðsluáhættu 0,50%.

Heildarvelta íbúðabréfa nam rúmum 56 milljörðum króna í febrúar samanborið við tæpan 81 milljarð í sama mánuði á árinu 2009. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkaði nokkuð í febrúar eða um 17 -24 punkta eftir flokkum.

Þann 1. febrúar barst tilkynning frá Íbúðalánasjóði til Kauphallar þess efnis að matsfyrirtækið Standard & Poor´s hefði greint frá því þann 29. janúar að það hefði haldið lánshæfismati Íbúðalánasjóðs áfram á athugunarlista með neikvæðum vísbendingum. Er það gert í samræmi við lánshæfismat ríkissjóðs Íslands.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu tæpum 8,7 milljörðum króna í febrúar og voru afborganir að mestum hluta vegna íbúðabréfa. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í febrúar námu ríflega 900 milljónum króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×