Erlent

Vegatálmar úr líkum á Haiti

Óli Tynes skrifar
Frá Port au Prince.
Frá Port au Prince. Mynd/AP

Þótt flugvöllurinn í Port au Prince sé nú yfirfullur af af flugvélum sem flytja hjálpargögn og björgunarsveitir er björgunarstarf ekki hafið að neinu marki. Íbúar borgarinnar eru orðnir langþreyttir enda hafa þeir hafst við á götum úti síðan borgin hrundi.

Þeir hafa gripið til þess að hlaða vegatálma úr líkum til þess að láta óánægju sína í ljós. Sumar björgunarsveitirnar virðast raunar ekki alveg átta sig á því hvað þær voru að fara útí. Þannig hafa sumar þeirra engin tjöld eða annað sem þarf til þess að búa til búðir og stjórnstöðvar fyrir sjálfar sig.

Íslenska björgunarsveitin sker sig úr að því leyti að hún hefur allt sem hún þarf til þess að starfa í að minnsta kosti viku alveg sjálfstætt.

Svo virðist einnig sem íslenska björgunarsveitin sé sú fyrsta ef ekki sú eina hingaðtil sem hefur hafið raunveruleg björgunarstörf. Hún hefur þegar bjargað þrem ungum konum úr húsarústum.

Fréttamaður CNN á staðnum tók þessu sem himnasendingu og sagði að þetta virtist eina ljósið í skugga dauða og hörmunga. Hann tók viðtal við einn íslensku björgunarsveitarmannanna sem lýsti hvernig þeir hefðú fundið konurnar og borað og grafið þær út úr rústunum.

Annað ljós í myrkrinu er að SOS barnaþorpin á Íslandi hafa fengið þær fregnir að öll börnin í þorpum þeirra séu óhullt. Tvö ungmenni slösuðust lítillega en enginn lést. Sama er að segja um starfsfólkið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×