Erlent

Elín í heimsókn hjá Tiger

Óli Tynes skrifar
Elín Nordgren og Tiger Woods.
Elín Nordgren og Tiger Woods.

Tiger Woods hefur ekkert sést opinberlega síðan upp komst um stórfellt framhjáhald hans á síðasta ári. Yfir tíu konur hafa lýst því yfir að þær hafi átt í ástarsambandi við hann.

Ekkert af því hefur raunar verið staðfest eða sannað, en kylfingurinn hefur viðurkennt að hafa verið hinni sænsku Elínu ótrúr.

Það varð opinbert eftir að hann lenti í furðulegu bílslysi við heimili sitt. Hann mun þar hafa verið á flótta undan Elínu sem elti hann með golfkylfu og barði bílinn að utan af slíkum krafti að Tiger missti stjórn á honum.

Síðan bárust fréttir af því að Elín væri komin heim til Svíþjóðar þar sem hún væri í sambandi við skilnaðarlögfræðinga með dollaramerki í augunum.

Jafnframt hrundu dollararnir af Tiger þegar hvert fyrirtækið af öðru sagði upp auglýsingasamningum við hann.

Tiger er nú á hæli í Missisippi sem heitir Gentle Path . Sagt er að þar verði hann í sex vikur hið minnsta til þess að ná stjórn á kynhvöt sinni.

Tímaritið People segir nú að margir útsendarar fjölmiðla sem sitja um hælið telji sig hafa borið kennsl á Elínu sem hafi komið þangað í heimsókn.

Haft er eftir fjölskylduvini að þau Tiger vilji reyna að bjarga hjónabandi sínu. Þau eiga saman tvö börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×