Innlent

Íslendingurinn var einn á ferð og á leið heim úr partýi

Mynd tengist frétt ekki beint.
Mynd tengist frétt ekki beint. Mynd/AFP
Tuttugu og þriggja ára gamall Íslendingur, búsettur í Noregi, lést eftir að hann varð fyrir lest í bænum Drammen í gærkvöld. Þetta er fjórði Íslendingurinn á rúmri viku, sem lætur lífið af slysförum erlendis.

Í samtali við fréttastofu í morgun segir Truls Fjeld vettvangsstjóri hjá lögreglunni í Drammen að maðurinn hafi verið einn á ferð þegar slysið varð.

Lögregla rannsaki enn málið en allt bendi til þess að ekki hafi verið um sjálfsvíg að ræða, en maðurinn var staddur úti á lestarteinum þegar hann varð fyrir lestinni. Talið er að hann hafi látist samstundis þar sem lestin var á miklum hraða.

Um svokallaða flugvallarlest var að ræða sem keyrir á milli flugvallarins í Drammen og Brakeröya stöðvarinnar, þar sem slysið varð. Maðurinn sem er búsettur rétt fyrir utan Drammen var staddur í samkvæmi í grennd við slysstaðinn skömmu áður og telur lögregla að hann hafi verið á heimleið.

Slysið varð um klukkan hálf eitt í gærkvöldi en Truls segir engin vitni hafa verið að atvikinu að lestarstjóranum undanskildum. Hann segir rannsókn ekki lokið og því sé ekki komin niðurstaða í málið, en allt bendi til þess að um slys hafi verið að ræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×