Innlent

Velta fyrir sér 15% hækkun á gjaldskrá

Ingimar Karl Helgason skrifar
Borgaryfirvöld hafa velt fyrir sér allt að fimmtán prósenta hækkun á öllum þjónustugjaldskrám. Það þýðir verulegar hækkanir í sund, á söfn, í húsdýragarðinn, á byggingaleyfi, heimaþjónustu og í sumum tilvikum á mat og kaffi.

Fréttastofa hefur í höndum minnisblað borgaryfirvalda frá því í byrjun september. Þar er velt er upp ýmsum leiðum til að auka tekjur borgarinnar með því að hækka gjaldskrár.

Við höfum áður fjallað um útsvarið. Enn fremur hugsanlega hækkun á fasteignagjöldum, leikskólagjöldum, gjöldum fyrir skólamáltíðir og frístundaheimil. Niðurstaðan er í grófum dráttum sú að yrðu þessi gjöld færð til samræmis við það sem þekkist í Kópavogi og Hafnarfirði; gæti kostnaður fjögurra manna fjölskyldu aukist um fimm til tíu þúsund krónur á mánuði, ofan á fimmtán hundruð króna útsvarshækkun. Þetta miðast við fjögurra manna barnafjölskyldu, með sex hundruð þúsund í mánaðartekjur í tuttugu milljóna króna íbúð.

En þjónusta borgarinnar er víða. Í minnisblaðinu er fjallað um hversu miklar tekjur, fimm, tíu og fimmtán prósenta hækkanir á gjaldskrám borgarinnar, skili borgarsjóði.

Í sem stystu máli er talið að fimmtán prósenta hækkun á öllum gjaldskrám, muni skila borgarsjóði tæplega sexhundruð og tíu milljónum króna á ári; að því gefnu að hækkanir hafi ekki áhrif á eftirspurn.

En hvaða gjöld eru þetta? Þetta eru til dæmis gjöld fyrir sundstaði. Í Húsdýragarðinn, á Borgarbókasafnið, Árbæjarsafn, gjald fyrir byggingaleyfi, sorphirðugjald; gjald fyrir hundahald, gjald fyrir heimaþjónustu, vegna íbúða aldraðra og félagsstarf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×