Innlent

Mike Tyson millilenti á Íslandi

Ferðalangar um borð í þotu Icelandair ráku upp stór augu þegar uppgötvaðist að Mike Tyson var á meðal farþega um borð í vél félagsins morgun. Tyson, sem af mörgum er talinn einn besti boxari allra tíma, var á leið til Glasgow í Skotlandi þar sem hann mun halda fyrirlestra um lífshlaup sitt sem er ansi skrautlegt, svo vægt sé til orða tekið. Hann skipti um vél í Keflavík og flaug með Icelandair til Glasgow.

Með í för voru þriðja eiginkona kappans, Laikha og tveggja ára dóttir þeirra Milan, en Laikha gengur nú með áttunda barn kappans undir belti. Hjónin voru á Business Class í vélinni eins og búast má við af milljónamæringum og fylgir sögunni að Tyson hafi hagað sér vel í alla staði, en á sínum yngri árum var hann frægur fyrir ólæti af ýmsum toga. Frægt er þegar hann beit eyrað af Evander Holyfield forðum daga.

Nú er öldin önnur og í viðtali við breska blaðið The Daily Record segist Tyson hlakka til að heimsækja Skotland og ætlar hann að skoða Stirling kastala sem kemur við sögu í Braveheart, bíómynd Mels Gibson. Þá ætlar hann að heimsækja Loch Lomond, en að eigin sögn eru umhverfismál og dýravernd hans helsta áhugamál nú um stundir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×