Skoðun

Sígild eða nútímaleg stjórnarskrá

Ég hef verið spurður að því hvort ég vilji heldur sígilda eða nútímalega stjórnarskrá.

Mitt svar er þetta: Ég vil að ný stjórnarskrá verði allt í senn sígild, nútímaleg og framsýn. Sígild til þess að standast tímans tönn. Nútímaleg til samræmis við margar góðar fyrirmyndir í nýlegum stjórnarskrám annarra landa.

Framsýn vegna þess að við verðum að hafa framtíðarhagsmuni þjóðarinnar í huga þegar við semjum nýja stjórnarskrá.

Sígild stjórnarskrá þarf að tryggja tiltekin grundvallarréttindi þegnanna, óháð valdhöfum á hverjum tíma. Þannig tryggir hún lýðræðisleg réttindi fólks, jafnrétti kynjanna, jafnræði, tjáningarfrelsi, persónuvernd, fjölskylduvernd, eignarrétt og réttindi minnihlutahópa.

Nútímaleg stjórnarskrá tekur mið af nýlegum stjórnarskrám annarra landa, þar sem skýrt kemur fram að valdið sem stjórnvöldum er afhent um sinn er komið frá þegnunum og að þeir geti jafnvel tekið það til baka með þjóðaratkvæði þegar þeir ákveða. Í nútímalegum stjórnarskrám er einnig kveðið á um tiltekin félagsleg réttindi fólks og um skyldu stjórnvalda til þess að tryggja þau í reynd.

Framsýn stjórnarskrá inniheldur ákvæði um umhverfi, náttúruvernd og sjálfbæra þróun. Markmiðið er að tryggja afkomendum okkar hreint og fagurt land og jafnframt hagkvæma nýtingu auðlinda. Framsýn stjórnarskrá einangrar okkur ekki frá öðrum þjóðum.

Ég tel mikilvægt að til stjórnlagaþings veljist lausnamiðað fólk með fjölbreyttan bakgrunn, fólk sem getur unnið með öðrum að því að búa til nýja stjórnarskrá sem við getum verið stolt af.

Eggert Ólafsson, tækni- og stjórnsýslufræðingur í framboði til stjórnlagaþings.

http://eggertol.wordpress.com










Skoðun

Sjá meira


×