Erlent

Vilja koma í veg fyrir sjálfsvíg

Að minnsta kosti 1.300 manns hafa stokkið fram af Golden Gate brúnni í San Francisco. nordicphotos/afp
Að minnsta kosti 1.300 manns hafa stokkið fram af Golden Gate brúnni í San Francisco. nordicphotos/afp
Yfirvöld í nokkrum bandarískum borgum leita nú leiða til að koma í veg fyrir sjálfsvíg á opinberum stöðum.

Í San Fransisco hafa að minnsta kosti átta manns stokkið fram af Golden Gate brúnni í ár, en um 1.300 frá upphafi. Samþykkt hefur verið að strengja stálnet fyrir neðan brúna til að koma í veg fyrir sjálfsvíg. Svipað er uppi á teningnum í New York, þar sem skoðuð eru öryggisnet og aðrar hindranir.

Lögreglan í New York fékk yfir 640 tilkynningar um fólk sem stökk eða hótaði að stökkva fram af húsum og brúm í borginni fyrstu átta mánuði ársins. Það er 27 prósentum meira en í fyrra.

Tveir menn hafa stokkið af George Washington brúnni í New York á síðustu tveimur vikum. Þá hafa nokkrir stokkið fram af Empire State byggingunni og Brooklyn-brúnni á þessu ári. Í Empire State er há öryggisgirðing og mikill fjöldi öryggisvarða, en þrátt fyrir það hefur yfir þrjátíu manns tekist að stökkva fram af útsýnispallinum á 86. hæð. Geðlæknar sem rannsaka sjálfsmorð segja að þeir sem vilji binda enda á líf sitt á opinberan hátt velji fræg mannvirki þar sem það sé líklegra til að vekja athygli fjölmiðla. - þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×