Viðskipti innlent

Yfir 10 milljarðar lagðir inn eftir slökun gjaldeyrishafta

Á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru frá því að fyrsta skrefið í afnámi gjaldeyrishaftanna var stigið hafa tæplega 5 milljarðar kr. verðir lagðir hér inn á bankareikninga og tæplega 4,5 milljarðar kr. verið varið til að fjárfesta í atvinnurekstri. Rúmir 0,9 milljarðar kr. hafa farið í hlutabréfakaup og rúmir 0,2 milljarðar kr. í fasteignakaup. Samtals hafa því borist tæpir 10,6 milljarðar kr. í formi nýfjárfestinga á þessu tímabili.

Fjallað er um málið í Morgnkorni greiningar íslandsbanka. Þar segir að þessir peningar séu enn í landinu. Kemur þetta fram í upplýsingum sem Seðlabanka Íslands sendi frá sér í gær. Þar kemur einnig fram að tæpir 9 milljarðar kr. komu inn í nóvember og desember en um 2 milljarðar kr. nú í janúar.

Í lok október síðastliðins steig Seðlabanki Íslands fyrsta skrefið í afnámi gjaldeyrishafta með því að heimila innstreymi erlends gjaldeyris til nýfjárfestinga og útstreymi gjaldeyris sem kann að leiða af því í framtíðinni.Fengu þá fjárfestar heimild án takmarkana til þess að skipta aftur í erlendan gjaldeyri söluandvirði eigna sem þeir fjárfesta í, ásamt fjármagnstekjum af þeim.

Í Morgunkorninu segir að nú sé óvíst hvort þetta fjármagn hefði skilað sér inn krónuna þó svo að ekki hafi verið stigið ofangreint skref í afnámi gjaldeyrishafta. Fjárfestingarnar sýna samt trú á innlent efnahagslíf og eru kærkomin viðbót í afar takmarkað flæði á gjaldeyrismarkaði. Til samanburðar má nefna að afgangur af vöruskiptum við útlönd var 9,1 milljarða kr. samanlagt í nóvember og desember á síðasta ári.

Frá upptöku gjaldeyrishaftanna á árinu 2008 hefur vöru- og þjónustujöfnuðurinn verið jákvæður um 26 milljarða kr. að meðaltali á ársfjórðungi en það markar stóran hluta af nettóflæði á gjaldeyrismarkaði innan núverandi gjaldeyrishafta. Ofangreindir 10,6 milljarða kr. er því kærkomin viðbót og umtalsverð í þessum samanburði. Þess má einnig geta að samanlögð velta á millibankamarkaði með gjaldeyri hefur verið 9,7 miljarða kr. á þessum þrem mánuðum síðan í byrjun nóvember í fyrra.

Fyrir utan inngrip í gjaldeyrismarkaðinn í upphafi nóvember í fyrra hefur Seðlabankinn ekkert gripið inn í markaðinn síðustu þrjá mánuði. Á þeim tíma hefur gengi krónunnar hins vegar styrkst um 2,4% gagnvart helstu gjaldmiðlum að meðaltali.

Evran hefur farið úr 185 krónum í 177 krónur og dollarinn úr 124 krónum í 126 krónur, en evran hefur verið að gefa nokkuð eftir gagnvart dollaranum á þessu tímabili og sérstaklega núna í janúar. Styrking krónunnar á þessu tímabili á eflaust að hluta rætur sínar að rekja til ofangreindra10,6 milljarða kr. Þetta fyrsta skref í afnámi hafta verður því að telja jákvætt.

Geta verður þess að samhliða þessu fyrsta skrefi við afnám hafta í byrjun nóvember í fyrra voru gjaldeyrisreglurnar einnig endurbættar með það að leiðarljósi að loka glufum sem notaðar höfðu verið til að fara í kringum höftin. Urðu þessar breytingar m.a. til þess að aflandsmarkaður með krónur lagðist nánast af. Eflaust hafa þessar breytingar á stóran þátt í þeirri styrkingu krónunnar sem átt hefur sér stað á tímabilinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×