Erlent

Í lagi að leggjast með óvininum

Óli Tynes skrifar
Mata Hari er líklega frægust tálkvenna.
Mata Hari er líklega frægust tálkvenna.

Trúarbragðastofnun í Ísrael hefur gefið grænt ljós á að kvennjósnarar landsins leggist með óvinum þess. Tzomet stofnunin er helguð því hlutverki að túlka forn lög gyðinga með tilliti til breyttra aðstæðna dagsins í dag. Í úrskurði hennar segir að lagnaður geti verið: „Áhrifaríkt vopn." Í úrskurðinum er vísað til tálkvenna sem getið er í Biblíunni.

Meðal þeirra er Yael eiginkona Hevers sem Biblían segir að hafi tælt herráðsforingja óvinanna inn í tjald sitt. Þar svæfði hún hann áður en hún rak tjaldhæl í gegnum gagnauga hans. Það má líka finna nýlegri dæmi. Leyniþjónustan Mossad sendi til dæmis njósnarann Cindy til Bretlands um árið til þess að tæla Mordechai Vanunu sem hafði ljóstrað um um kjarnorkuvopn Ísraels.

Cindy sem síðar var upplýst að heitir Cheryl Bentov taldi Vanunu á að fara með sér í frí til Rómar. Þar tóku aðrir útsendarar Mossad við, rændu honum og fluttu til Ísraels. Þar var hann dæmdur til langrar fangelsisvistar.

Í úrskurði Tzomet segir að áhersla skuli lögð á að senda ógiftar konur til slíkra verka. Ef nauðsynlegt reynist að senda gifta konu er ráðlagt að eiginmaður hennar skilji við hana áður. Með þeim skilmálum þó að hann eigi rétt á að kvænast henni aftur að lagnaði loknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×