Erlent

Morðingi á flótta: Ætlar ekki að láta ná sér lifandi

Raoul Moat.
Raoul Moat. MYND/AFP

Breskir lögreglumenn leita enn að morðingjanum Raoul Moat sem hótar nú lögreglunni öllu illu.

Mikið lið vopnaðra lögreglumanna hefur leitað að Moat frá því á laugardag en þá særði hann fyrrverandi kærustu sína lífshættulega og skaut kærasta hennar til bana. Morðið var framið á heimili móður konunnar í Gateshead í Northumbria héraði. Daginn eftir skaut hann lögreglumann í Newcastle í andlitið þar sem hann sat í lögreglubíl sínum. Lögreglumaðurinn er alvarlega en þó ekki lífshættulega slasaður. Í gærkvöldi bárust síðan fregnir af því að Moat, sem í síðustu viku var sleppt úr fangelsi, hefði sent lögreglunni 40 blaðsíðna bréf á sunnudag þar sem hann lýsir yfir stríði gegn lögreglunni í Northumbria héraði.

Í bréfinu segir Moat að almenningur þurfi ekki að óttast hann, en að öðru máli gegni um lögregluna þar sem hann muni ekki hætta fyrr en hann gefi upp öndina. Hann kennir lögreglunni um allar sínar ófarir og segir að hún hafi tekið frá sér frelsið, börnin hans og heimili. En Moat var dæmdur og fangelsaður fyrir ofbeldisverk í fyrra.

Lögreglan hefur verið gagnrýnd nokkuð í málinu en á föstudag, áður en Moat var sleppt úr fangelsi, höfðu fangaverðir hans varað lögregluna við að hann hefði í hyggju að myrða kærustu sína fyrrverandi. Þá hefur einnig komið í ljós að Moat hringdi í neyðarlínuna tíu mínútum áður en hann skaut lögregluþjóninn á sunnudag þar sem hann lýsti því í smáatriðum hvað hann ætlaði sér að gera. Þá hefur hann birt lista á Facebook síðu sinni þar sem hann tiltekur hverja hann ætli sér að taka af lífi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×