Erlent

Dekkjaumgangur kostar fjórar milljónir

Óli Tynes skrifar
Fjandi dýr dekk.
Fjandi dýr dekk. Mynd/Bugatti

Bugatti Veyron er víst nokkuð röskur bíll. Eittþúsund hestafla vélin kemur honum upp í hundrað á tveimur og hálfri sekúndu. Þremeningarnir í Top Gear hafa allir prófað dolluna og líst nokkuð vel á hana.

Framleiðendurnir segja að hámarkshraðinn sé yfir 400 kílómetrar á klukkuststund og James May hjá Top Gear sannreyndi það árið 2006 þegar hann keyrði Búggann upp í 407.9 kílómetra.

May sagði að á þeim hraða entust dekkin í fimmtán mínútur, en það væri allt í lagi því bensínið yrði búið eftir tólf mínútur.

May var ekki að grínast því í botni eyðir bíllinn 115 lítrum á hverja 100 kólómetra. En það var þetta með dekkin. Og rekstrarkostnaðinn.

Bugatti Veyron er víst dýrasti fólksbíll í heimi. Hann kostar um 220 milljónir íslenskra króna og inni í því er ekki þetta lítilræði sem íslenska ríkið leggur á bíla. Þeir sem kæra sig um geta reiknað dæmið áfram.

Og dekkin? Jú, nýr umgangur kostar um fjórar milljónir króna. Dálítið 2007 ekki satt?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×