Skoðun

Nóg að redda malarvegi og ljósvita á helstu sker?

Óli Halldórsson skrifar
Forystugrein Ólafs

Ekki verður komist hjá því að svara forystugrein Fréttablaðsins sl. laugardag (9. okt.) stuttlega. Greinin Ólafs ritstjóra verður ekki endursögð hér en í meginatriðum blandaði hann sér í umræðuna um niðurfellingu sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni. Hann segir það m.a. „skynsamlegt sjónarmið" að byggja hátækni og sérfræðiþjónustu á fáum stöðum og efla almenna heilsugæslu annars staðar. Ólafur segir að það sé „opinbert leyndarmál" að „tækni og sérþekking á smærri sjúkrahúsum [sé] oft vannýtt og ýti jafnvel undir tvíverknað…". Það væru „mistök að láta undan þrýstingi um að hætta við niðurskurðinn". Þessu til viðbótar lætur hann að því liggja andmæli íbúa þessa lands við hinni pólitísku stefnubreytingu í heilbrigðiskerfinu síðustu daga séu öðru fremur sérhagsmunapot. Skoðun ritstjórans er skýr og glögg. Hann telur tillögu fjárlagafrumvarps um tilflutning sjúkrahúsþjónustu frá byggðum landsins til Reykjavíkur og Akureyrar sérlega skynsamlega. En haldbær rök eru lítil. Þetta er grunn umræða í yfirborðskenndum klisjum. Ekki stutt gögnum heldur sögnum. (Ritstjóra til varnaðar, hafa gögn heilbrigðisráðherra að baki tillögunum ekki fundist og því erfitt um vik fyrir ritstjóra eða aðra að byggja á þeim.)

Kostnaðurinn

Allt snýst þetta um kostnað og sparnað. Nú er það svo að undanfarna daga hafa rekstrartölur Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga (og reyndar fleiri stofnana, t.d. Heilbr.st. Austurlands) verið bornar saman við tölur frá Landsspítala. Þar kemur nokkuð glögglega fram að sjúkrarými eru nú almennt verulega ódýrari í rekstri á þessum minni sjúkrahúsum. Ástæðan er augljós: Stærri sjúkrahúsin bera að sjálfsögðu meiri tækni, búnað og sérhæfðan mannskap í rekstri sínum en smærri sjúkrahúsin. Gistinóttin þar verður miklu dýrari fyrir vikið. Í þeim tilfellum sem sjúkralegan krefst þessarar þekkingar og búnaðs er þessi kostnaður óhjákvæmilegur en í mjög mörgum tilfellum er engin þörf á „hátækniplássinu".

Spurningin verður þá þessi: Er ekki gáfulegra að nýta minni sjúkrahúsin áfram eins og kostur er til að forðast óþarfa kostnað þegar hans er ekki þörf? Af hverju eigum við að loka þessum rýmum og keyra allan mannskap þessarar þjóðar í allar legunætur inn á fokdýra, mikið sérhæfða, og áður en yfir lýkur, yfirhlaðna spítala? Þessu þarf ritstjórinn að svara áður en hann birtir pólitíska stefnu Fréttablaðsins í leiðara: Hvað sparast við þetta? Hvernig?

Landafræðin

Ritstjórinn miðlar stuttlega af þekkingu sinni á íslenskri landafræði. Hann lætur að því liggja að Húsavík og Suðurnes séu sambærileg svæði hvað varðar „möguleika á að flytja sjúklinga með hraði á stórt sjúkrahús". (Á móti Vestmannaeyjum og Ísafirði sem einnig eru nefnd). Ekki skal lítið gert úr erfiðum samgöngum Ísfirðinga og Vestmanneyinga. En að bera saman Þingeyjarsýslur og Suðurnes í samgöngulegu tilliti er í besta falli broslegt og augljóslega annað hvort komið til af vanþekkingu á landafræði Íslands eða einhvers konar misskilningi. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga starfar hreint ekki bara á Húsavík. Starfssvæðið er 18% af flatarmáli þessa lands og nær til Bakkafjarðar í austri. Akstursvegalengd frá Bakkafirði til Húsavíkur er tæpir 300 km. Það er svipað og frá Reykjavík til Skagafjarðar fyrir þá sem illa þekkja til íslenskrar landafræði. Íbúar á Þórshöfn, Raufarhöfn, Bakkafirði, Kópaskeri og Mývatnssveit nýta allir Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Þetta risavaxna svæði er að auki annað af tveimur lang-fjölsóttustu ferðaþjónustusvæðum Íslands, þ.e ásamt SV-horninu, og margfaldast umferð fólks um svæðið hartnær hálft árið. Starfssvæði Reyknesinga til samanburðar er sáralítið í flatarmáli og akstursvegalengd í mesta lagi 10-20 km innan svæðisins.

Annað sem ekki má gleymast er að á milli Húsavíkur og Akureyrar eru 90 km og liggur sú leið yfir hið alræmda Víkurskarð. Skarðið það er með fyrstu fjallvegum til að mynda hálku og skafrenning á veturna og lokast mörgum sinnum á hverjum vetri sökum snjóa. Til samanburðar eru frá Suðurnesjum til Reykjavíkur 20-40 km á fjögurra akreina malbiki hér um bil við sjávarmál.

Sérhagsmunagæslan og hagfræðin

Það er lítið annað en óþolandi að lesa eða hlusta sífellt á fjölmiðlafólk túlka það sem „sérhagsmunagæslu" eða að segja þingmenn vera að „slá sig til riddara" með „loforðum til byggðalaga" þegar þeir dirfast að styðja við eða verja grunnþjónustu á landsbyggðinni. Þarna þarf ritstjóri útbreiddasta dagblaðs landsins að stíga upp úr grunnum klisjum og horfa á heildina - „tryggja hag heildarinnar sem bezt" eins og ritstjóri orðar það. Þessi heildarsýn krefst nefnilega dýpri greiningar. Hvaðan skyldu tekjur þjóðarinnar koma nú á krepputímum? Hvað segja gögn Hagstofunnar um útflutningstekjur frá þessu landi? Hvernig myndast þær? Hvernig skyldu þær skiptast milli höfuðborgar og landsbyggðar?

Af þessum spurningum leiðir algert grundvallaratriði: Hvaða innviði þarf þessi þjóð til að geta nýtt þær auðlindir sem gefa þessar útflutningstekjur? Er nóg að redda malarvegi, ljósvita á helstu sker og kannski símalínu til að auðlindirnar mjólki sig sjálfar um landið?

Svörin eru skýr: Laskað hagkerfi nýja-Íslands er fóðrað af útflutningstekjum úr sjávarútvegi, jarðvarma- og vatnsaflsorku, áliðnaði og ferðaþjónustu - sem í miklum mæli kemur af landsbyggðinni. Þá kemur hitt að sjálfu sér, að aldrei er mikilvægara en á krepputímum að viðhalda lágmarksinnviðum í heilbrigðis-, mennta- og félagsþjónustu á landsbyggðinni. Í það minnsta ætti ekki að skera meira niður í þessum innviðum en sem nemur grunn-niðurskurði hvers ráðuneytis. Sé þessum innviðum ekki viðhaldið bíður tekjuliður hagkerfisins fljótt skaða af. Þetta er augljóst hverjum sem þekkir til búsetu í þessu landi. Af hverju ætti ungt barnafólk að vilja búa á Húsavík og vinna við myndun útflutningstekna af hvalaskoðun eða línuveiðum, á Reyðarfirði í álverksmiðju eða á Þórshöfn við vinnslu uppsjávarfisks ef ekki er boðleg heilbrigðisþjónusta fyrir fjölskylduna á staðnum? Eða menntaþjónusta? Eða almennileg löggæsla?

Þótt ótrúlegt megi virðast hafa Þingeyingar, og raunar íbúar í byggðum landsins almennt, ekki kveinkað sér mikið undan svolitlum niðurskurði nú á krepputímum. Sérstaklega í ljósi þess að í góðærinu óx ýmis starfsemi á vegum ríkisins með gríðarlegum hraða á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert í líkingu við þetta gerðist hins vegar á landsbyggðinni. Veislan stóð yfir í höfuðborginni en aðrar byggðir landsins fengu ekki boðskort. Bara timburmennina sem fylgdu.

Þessu verður að linna. Ritstjóri Fréttablaðsins verður að sýna dýpri hugsun en þetta yfirborðskennda hrokafulla borgríkishjal sem forystugrein hans ber vott um.

En batnandi fólki er best að lifa. Rétt eins og ráðherrum og þingmönnum sem vinda munu ofan af þeirri vitleysu sem hér hefur verið rætt um mun ristjórinn án efa rita betri forystugrein næst. Kannski verða þar vangaveltur um nýtingu almannafjár nær gjaldþrota ríkis í miðri kreppunni. Svo sem til dýrustu byggingar Íslandssögunnar - áformaðs hátæknisjúkrahúss, nú eða fokdýrra menningarhúsa, flugvallarmannvirkja eða mislægra gatnamóta. Kannski líka ritstjórnarlegar vangaveltur um dansflokka, einkaskóla eða aðra bráðnauðsynlega útgjaldliði til grunninnviða samfélagsins í Reykjavík á krepputímum. Ég er strax farinn að hlakka til að lesa.

Óli Halldórsson

Höfundur er Þingeyingur




Skoðun

Sjá meira


×