Viðskipti innlent

Sjávarútvegurinn skuldar þrotabúum 300 milljarða

Reikna má út að sjávarútvegurinn, það er útgerð og fiskvinnsla, skuldi nú þrotabúum stóru bankanna þriggja um 300 milljarða kr. af heildarskuldum sínum sem nema hátt í 600 milljörðum kr. í dag.

Megnið af mismuninum milli þessara tveggja upphæða eru lán í Nýja Landsbankanum (NBI) og Íslandsbanka auk þess að eitthvað er um skuldir beint við erlenda banka eða minni fjármálafyrirtæki á Íslandi.

Ólína Þorvarðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sendi fjármálaráðherra fyrirspurn á Alþingi um skuldastöðu sjávarútvegsins. Í svarinu kemur m.a. fram..." að í stofnefnahagsreikningi Landsbankans (NBI hf.) miðað við 8. október 2008...að um 26% af útlánasafni bankans hafi verið útlán til sjávarútvegsfyrirtækja.

Í stofnefnahagsreikningi Íslandsbanka, dags. 15. október 2008... kemur fram að um 16% af útlánum bankans séu lán til sjávarútvegsfyrirtækja. Í endurskoðuðu uppgjöri Nýja Kaupþings banka hf. (nú Arion banka) fyrir árið 2008... kemur ekki fram hve stór hluti útlána bankans eru til sjávarútvegsfyrirtækja."

Samkvæmt þessum stofnefnahagsreikningum liggja því 158 milljarðar kr. af lánunum í NBI og 76 milljarðar í Íslandsbanka eða samtals 236 milljarðar kr. Óljóst er með skuldirnar í Arion banka en reikna má með að þær nemi einhverjum tugum milljarða kr.

Samkvæmt nýlegum tölum frá Hagstofunni námu heildarskuldir sjávarútvegsins í lok árs 2008 um 564 milljörðum kr. Um 95% af þessum lánum eru gengisbundin að því er kom fram í skýrslu Seðlabankans um fjármálasstöðugleika 2009. Hefur sú tala því hækkað eitthvað á síðasta ári vegna gengisþróunnar en á móti koma afborganir af lánunum.

Af þessu er ljóst að um 300 milljarðar kr. af skuldunum liggja í þrotabúum Landsbankans, Glitnis og Kaupþings og eru þar í umsjá skilanefnda þeirra. Þrotabúin eru svo aftur í eigu erlendra kröfuhafa bankanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×