Lífið

Enginn peningur til fyrir Eurovision-myndbandi í ár

Ekkert myndband í ár.
Reynir Þór Eggertsson telur Eurovisionmyndböndin hafa litlu skilað og skilur vel að þau Örlygur Smári og Hera Björk skuli ekki ætla að gera slíkt. Hægt sé að eyða peningum í aðra og betri hluti. Þetta verður í fyrsta skipti síðan Anna Mjöll gerði svart/hvítt myndband við Sjúbbídú að framlag Íslands til Eurovision verður ekki með sitt eigið myndband.
Ekkert myndband í ár. Reynir Þór Eggertsson telur Eurovisionmyndböndin hafa litlu skilað og skilur vel að þau Örlygur Smári og Hera Björk skuli ekki ætla að gera slíkt. Hægt sé að eyða peningum í aðra og betri hluti. Þetta verður í fyrsta skipti síðan Anna Mjöll gerði svart/hvítt myndband við Sjúbbídú að framlag Íslands til Eurovision verður ekki með sitt eigið myndband.

„Það er einfaldlega ekki til peningur fyrir slíku. Þannig er allavega staðan í dag. En það getur alltaf breyst þótt ég eigi ekkert von á því,“ segir Hera Björk Þórhallsdóttir, fulltrúi Íslands í Euro­vision. Ekkert myndband verður gert við framlag Íslands, Je ne sais quoi, eins og gert hefur verið síðustu tólf skiptin sem Ísland hefur keppt. Myndbönd hafa verið framleidd alveg síðan Anna Mjöll söng Sjúbbídú árið 1996 eftir því sem Fréttablaðið kemst næst.

„Við verðum að skera niður eins og allir aðrir, því miður, en þessi myndbönd hafa ekki alltaf verið að skila því sem þau eiga að skila,“ bætir Hera Björk við.

Reynir Þór Eggertsson Euro­vision-sérfræðingur segir þetta skiljanlega ákvörðun og tekur undir orð Heru.

„Þessi Euro­vision-myndbönd hafa verið að fá sáralitla spilun utan heimalandsins og raunar held ég að þessi myndbönd hafi lítið að segja,“ segir Reynir og bendir á að Alexander Rybak, sem vann í keppninni í Moskvu á síðasta ári með miklum yfirburðum, hafi ekki gert neitt myndband.

„Það er miklu líklegra til árangurs að vera með öfluga maskínu á Netinu og vera dugleg við að fara í viðtöl á Netinu. Þetta vinnst oft á umræðunni þar sem hún smitar út frá sér.“ Svo Rybak sé aftur notaður sem dæmi þá voru Eurovision-sérfræðingar fyrir löngu búnir að spá honum sigri í keppni og það virtist bera tilætlaðan árangur.

En þá aftur að Heru, sem var raunar stödd í London þegar Fréttablaðið náði tali af henni ásamt fatahönnuðinum Birtu Björnsdóttur. Þær voru að leita að efni fyrir kjólinn sem Hera hyggst klæðast þegar stóra stundin rennur upp um miðjan maí í Ósló.

„Við fundum ekki rétta efnið heima og ég bauðst bara til að syngja fyrir Iceland Express ef þeir byðu okkur hingað út. Og hérna erum við, þrátt fyrir verkfall og eldgos,“ segir Hera en þær stöllur gera þetta eins ódýrt og mögulegt er, gista á farfuglaheimili við Hyde Park og hugðust fara í verslunarferð niður í Soho-hverfið. freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.