Erlent

Þúsundir mættu í jarðarför

Átta manns jarðsungnir Fjöldi manns fylgdi hinum látnu til grafar.
Átta manns jarðsungnir Fjöldi manns fylgdi hinum látnu til grafar. nordicphotos/AFP
Til Tyrklands komu í fyrrinótt alls 466 þeirra 700 manna sem voru um borð í skipalestinni sem Ísraelar réðust á í vikunni. Flestir þeirra eru Tyrkir, en fimmtíu af öðru þjóðerni.

Þúsundir manna mættu til að fagna komu þeirra á Taksimtorginu í Istanbúl.

Tíu þúsund manns mættu síðar um daginn í jarðarför átta af þeim níu sem féllu fyrir hendi ísraelskra hermanna um borð í Mavi Marmara, stærsta skipi flotans. Sá níundi verður jarðsunginn í dag. Allir voru þeir Tyrkir, en einn þó bandarískur ríkisborgari.

Sumir þeirra sem voru um borð í Mavi Marmara viðurkenna að hafa tekið þátt í átökum við ísraelsku hermennina, en sögðust hafa verið í sjálfsvörn því ísraelsku hermennirnir hafi ráðist um borð í skipið á alþjóðlegu hafsvæði.

„Þegar við hófum morgunbænir fóru þeir að ráðast á okkur úr öllum áttum, frá bátum og þyrlum. Vinir okkar sýndu aðeins borgaralega andspyrnu.“

Henning Mankell, sænski rithöfundurinn sem var um borð, segir þó fáránlegt að vopn hafi fundist um borð: „Á skipinu sem ég var á fundu þeir eitt vopn, og það var rakvélin mín.“- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×