Viðskipti innlent

Hóta skaðabótamáli vegna gengislánadóms Hæstaréttar

Erlendir kröfuhafar Glitnis og eigendur Íslandsbanka eru uggandi eftir dóm Hæstaréttar og kanna nú réttarstöðu sína. Bankarnir gætu tapað mörgum tugum milljarða króna verði gengistryggð húsnæðislán og fyrirtækjalán dæmd ólögmæt. Kröfuhafarnir íhuga skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu vegna forsendubrests í samningum.

Uppnám ríkir í herbúðum erlendra kröfuhafa eftir nýlegan dóm Hæstaréttar. Kröfuhafar Glitnis og Kaupþings eru stærstu eigendur Íslandsbanka og Arion, en bankarnir gætu þurft að afskrifa tugi milljarða króna vegna ólögmætis gengistryggðra bílalána.

Engir fyrirvarar voru gerðir í samningum um lögmæti lánanna þegar innlendar eignir gömlu bankanna voru fluttar yfir í þá nýju. Eignirnar voru vissulega færðar yfir á miklum afslætti en ólíklegt er talið að hann einn dugi til að takast á við afskriftir séu gengistryggð húsnæðis- og fyrirtækjalán einnig undir. Unnið er að því í bönkunum að meta stöðuna og flokka útlán eftir tegundum. Ekki mun þó liggja fyrir hvert tapið verður fyrr en dómstólar hafa tekið fleiri lánasamninga fyrir.

Í ársreikningi Landsbankans fyrir árið 2009 kemur fram að í versta falli gæti tap bankans numið 100 milljörðum króna. Sambærileg tala liggur ekki fyrir opinberlega hjá hinum bönkunum.

Kröfuhafar Glitnis, og eigendur Íslandsbanka, funduðu með skilanefnd bankans í London á fimmtudaginn. Samkvæmt heimildum fréttastofu íhuga þeir að höfða skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu vegna forsendubrests í uppgjörssamningum, en ríkið samdi á sínum tíma við skilanefndir bankanna um eignarhald og uppgjör á nýju bönkunum.

Kröfuhafar Glitnis hafa nú þegar tapað á bilinu 1500-2000 milljörðum króna á falli bankans og eru uggandi yfir því að tapið gæti orðið enn meira.

Kröfuhafar Kaupþings og eigendur Arion banka munu einnig vera að kanna sína réttarstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×