Erlent

Írar reka ísraelska erindreka úr landi vegna Dubai-morðsins

Mahmoud al-Mabhouh var myrtur í Dubai.
Mahmoud al-Mabhouh var myrtur í Dubai.

Írsk yfirvöld hafa rekið ísraelska erindreka úr landinu vegna fölsunar á vegabréfum í nafni þjóðarinnar þegar ísraelska leyniþjónustan á að hafa tekið leiðtoga Hamas af lífi í Dubai í byrjun árs.

Írar eru þar með þriðja landið sem rekur ísraelska erindreka úr landi vegna vegabréfanna sem morðingjarnir framvísuðu þegar þeir komu til Dubai í janúar.

Bretar voru fyrstir til þess að reka erindrekana úr landi þar sem þeim þótti fullljóst að ísraelska leyniþjónustan hefði sent drápsveit til Dubai til þess að myrða Mahmoud al-Mabhouh, sem var leiðtogi Hamas. Hann fannst látinn á hótelherbergi sínu.

Morðingjarnir framvísuðu einnig vegabréfi frá Ástralíu en ríkisstjórnin þar í landi hefur einnig rekið ísraelska erindreka úr landi.

Ríkisstjórn Ísrael hefur ekki viðurkennt drápið en að sama skapi hafa þeir ekki heldur neitað því. Slíkt mun vera vinnuregla hjá ríkisstjórninni, það er að segja að hún hvorki staðfestir né neitar einu eða neinu í málefnum er varða Mossad, sem er leyniþjónusta landsins.

Utanríkisráðherra Íra, Micheal Martin, segir að rannsókn hafi leitt í ljós að Mossad hafi sannarlega staðið á bak við morðið. Martin sagði í viðtali við BBC að það yrði að takast á við þetta alvarlega mál af festu, því reka þeir erindrekana úr landi þegar í stað.

Talsmaður ísraelska utanríkisráðuneytisins, Yigal Palmor, segir viðbrögðin ekki í samræmi við tengsl þjóðanna.

Morðingjarnir framvísuðu einnig þýskum og frönskum vegabréfum. Þau ríki hafa ekki gripið til jafn harðra aðgerða og fyrrgreind ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×