Viðskipti innlent

Skeljungi og Atlantsolíu veitt undanþága til samstarfs

mynd/gva
mynd/gva Mynd/Vísir.

Samkeppniseftirlitið hefur veitt Atlantsolíu ehf. og Skeljungi hf. undanþágu til samstarfs um flutning og dreifingu á olíu milli Reykjavíkur og Akureyrar. Er undanþágan tímabundin og gildir til 14. maí 2010.

Á vefsíðu eftirlitsins segir að erindi félaganna laut að ætluðu samstarfi Skeljungs og Atlantsolíu á sviði flutnings og áfyllingar olíu í eigu Atlantsolíu, en félagið hafði óskað eftir því að kaupa tímabundið slíka þjónustu af Skeljungi.

Felst í samstarfinu að Skeljungur mun annast flutning eldsneytis í eigu Atlantsolíu með skipi til Akureyrar, landsetja eldsneytið í birgðastöð Skeljungs á Akureyri, flytja eldsneytið þaðan og skila því á útsölustað Atlantsolíu. Vegna þessarar þjónustu og ábyrgðar Skeljungs fengi félagið greidda þóknun samkvæmt óuppsegjanlegum þjónustusamningi á milli félaganna með þriggja mánaða gildistíma.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitisins segir að samstarf Skeljungs og Atlantsolíu fer gegn bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga. Með heimild í ákvæði 15. gr. samkeppnislaga veitir Samkeppniseftirlitið nefndu samstarfi tímabundna undanþágu frá ákvæði 10. gr. laganna að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

Skeljungi hf. er óheimilt að miðla hvers konar viðskiptalegum upplýsingum til Atlantsolíu ehf., t.d. um núverandi eða mögulega keppinauta eða viðskiptavini félagsins. Hið sama gildir um önnur félög undir virkum yfirráðum þess.

Atlantsolíu ehf. er óheimilt að miðla hvers konar viðskiptalegum upplýsingum til Skeljungs, t.d. um núverandi eða mögulega keppinauta eða viðskiptavini félagsins. Hið sama gildir um önnur félög undir virkum yfirráðum þess.

Meðan undanþágan gildir skulu Skeljungur hf. og Atlantsolía ehf. tilkynna Samkeppniseftirlitinu strax um allar verðbreytingar og aðrar breytingar á skilmálum í flutningum Skeljungs á eldsneyti í eigu Atlantsolíu til Akureyrar.

Stjórnarmenn og hlutaðeigandi starfsmenn Skeljungs hf. og Atlantsolíu ehf. skulu undirrita sérstaka yfirlýsingu um að þeir muni fara eftir þessum skilyrðum. Félögin skulu tryggja að hið sama geri stjórnarmenn og hlutaðeigandi starfsmenn í félögum undir virkum yfirráðum þeirra. Afrit af yfirlýsingum þessum skulu afhent Samkeppniseftirlitinu.

Undanþága þessi gildir í þrjá mánuði, þ.e. frá birtingu ákvörðunar 12. Febrúar 2010 til 14. maí 2010. Skulu félögin láta samstundis af samvinnunni þegar undanþágan rennur út.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×