Skoðun

Tölvuglæpir - enginn er óhultur

Ólafur Róbert Rafnsson skrifar

Alþjóðlegir glæpahringir og hryðjuverkasamtök hafa verið iðnir við að tileinka sér og nýta nýjustu upplýsingatækni. Það getur haft bein áhrif á fyrirtæki og jafnvel einstaklinga um allan heim. Tölvuglæpir beinast ekki einungis að stórum fyrirtækjum og stofnunum. Oft er ráðist til atlögu þar sem fólk telur sig vera algjörlega óhult.

Nærtækt dæmi eru samfélagsvefir á borð við Facebook sem njóta gífurlegra vinsælda. Með aukinni notkun slíkra vefja munu glæpamenn sækja í þá í auknum mæli enda eru einstaklingar oft berskjaldaðri á Netinu en í raunheimum. Samskipti á þessum vefjum byggjast á trausti.

Notendur eru til dæmis líklegri til að opna óæskilega vefslóða frá „vini" en að hleypa ókunnugum inn á heimili sitt eða vinnustað.

Fjölmörg dæmi eru um að í WEB 2.0 sem t.a.m. Facebook byggir á leynist svokallaðir trójuhestar, sem notendur hleypa óafvitandi inn í tölvur sínar. Þeir eru notaðir til að stela aðgangsupplýsingum, til dæmis að heimabönkum. Hugbúnaður sem dulkóðar gögn er notaður til fjárkúgunar og svo framvegis.

Það er raunverulegur fjárhagslegur ávinningur fyrir óprúttna aðila að nota Facebook sem vettvang fyrir tölvuglæpi og því ekki við öðru að búast en að tíðni slíkra glæpa muni fara vaxandi.

Tölvupóstur er einnig gríðarlega mikið notaður sem vettvangur óprúttinna aðila til að komast yfir aðgangsorð einstaklinga og ýmsar upplýsingar sem geta verið viðkvæmar.

Tölvuþrjótar eru líka stöðugt að færa út kvíarnar. Þótt hugbúnaður frá Microsoft hafi til þessa trónað efst á listanum yfir þann hugbúnað sem vinsælast er að hakka, bendir allt til þess að hugbúnaður frá Adobe, og þá ekki síst Adobe Reader og Flash, muni fljótlega verma efsta sætið.

Svokölluð Botnet eru með þróuðustu tólum sem tölvuglæpamenn nota en það er heiti á neti tölva sem nýtt er til að fremja tölvuárásir yfirleitt án þess að eigendur tölvanna geri sér grein fyrir að verið sé að nýta þær í vafasömum tilgangi. Botnetin eru mikið notuð til að senda svokölluð SPAM en talið er að mikill meirihluti ruslpósts komi frá slíkum netum. Þau eru einnig notuð til fjárkúgunar. Þess ber að geta að ef tölvur sem eru hluti af Botnetum eru á neti fyrirtækja eða stofnana er hætta á að fyrirtækin eða stofnanirnar lendi á bannlistum alþjóðlegra netkerfa í lengri eða skemmri tíma. Nýlegt íslenskt dæmi um slíkt er Háskóli Íslands.

Baráttan við tölvuglæpamenn er flókin og erfið en það er mikilvægt að auka og efla almenna vitund á þeim hættum sem leynast á tölvunetum og hvernig best sé að verjast þeim. Líkt og í raunheimum munu tölvuglæpamenn sífellt finna sér nýjar lendur. Reikna má með því að farsímar verði næsta vígið sem tölvuglæpamenn leggja til atlögu við þar sem þeir eru í síauknum mæli notaðir til að vafra um Netið og skoða tölvupóst.

Það eru mörg atriði sem þarf að hafa í huga til að koma í veg fyrir að verða fyrir barðinu á tölvuglæpamönnum en góð regla er að hugsa sig vandlega um áður en hlaðið er inn á tölvuna hugbúnaði eða smellt er á áhugaverða slóð frá „vini". Við notum tölvurnar okkar í námi, vinnu, fyrir heimilið og okkur til gamans og lítum á þær sem hvert annað heimilistæki eða vinnutæki. Það er hins vegar mikilvægt að hafa hugfast að fara gætilega til þess að tölvan opni ekki dyrnar fyrir óprúttna aðila að til dæmis bankareikningum okkar eða einkalífi.






Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×