Skoðun

Um orkulögmálið í fjármálaheiminum

Jón Baldur Þorbjörnsson skrifar
Eitt af lögmálum eðlisfræðinnar segir að orka geti hvorki orðið til né eyðst, heldur aðeins umbreyst. Án þess að vera sérlega hagspekilega vaxinn tel ég að þannig sé þessu einnig háttað um fjármagn: Það verður hvorki til úr engu né heldur getur það gufað upp (eða bara farið til himna, eins og Björgólfur Thor orðaði það í kvikmynd Gunnars Sigurðssonar). Fjármagn umbreytist aðeins í vinnu, hluti, og þjónustu, og öfugt.

Af því dreg ég þá ályktun að skuldir sem stofnað hefur verið til hverfi ekki. Ef einhver sleppur við að borga skuld sína, hvort sem hún hefur verið afskrifuð eða af öðrum orsökum, þá flyst skuldin væntanlega á annan aðila. Ef þessi annar aðili er banki eða starfsemi í hans eign fæ ég ekki betur séð en að verið sé að velta skuldinni yfir á almenning, þ.e.a.s. þann hluta hans sem er borgunarmaður fyrir skuldum. Því þegar bankar hagnast þá eiga þeir gróðann. En þegar þeir tapa eigum við tapið. Það virðist líka vera lögmál.

Sama sýnist mér eiga við um gjaldeyristryggð bílakaupalán. Þegar þau voru tekin var fólk vísvitandi og markvisst að gambla með lánsféð, treysti á að krónan myndi halda áfram að styrkjast og það myndi græða á gengismuninum. Eins og það væri að búa til peninga úr engu. Nú þegar vopnin hafa snúist í höndum fólksins sé ég ekki beinlínis að lánafyrirtækin eða eigendur þeirra, bankarnir, eigi að taka á sig skellinn þrátt fyrir nýgenginn dóm um annað. Geri ráð fyrir að það ríði lánafyrirtækjunum að fullu. Bankar eiga þessar lánastofnanir, og hverjir skyldu nú eiga bankana?

Af því að skuldir hverfa ekki fæ ég ekki betur séð en að það lendi á mér að borga ef lánafyrirtækin eru þurrausin. Það lendir á mér og öðru fólki sem er með allt sitt á hreinu vegna þess að það tók ekki þátt í hrunadansinum. Af því að ég stillti mig um að kaupa mér nýjan bíl með glýju í augum af gengistryggðum lánum og get því greitt mín gjöld til samfélagsins. En á að fara að refsa okkur fyrir það með því að láta okkur líka halda bönkum uppi sem lánuðu fólki peninga í þetta fjárhættuspil?



Skoðun

Sjá meira


×