Erlent

Enginn fékk meirihluta

Bronislaw Komorowski Þykir enn sigurstranglegur fyrir seinni umferð kosninganna. Nordicphotos/AFP
Bronislaw Komorowski Þykir enn sigurstranglegur fyrir seinni umferð kosninganna. Nordicphotos/AFP
Niðurstaða forsetakosninganna í Póllandi í gær varð sú að eftir tvær vikur þarf að greiða atkvæði á ný milli þeirra tveggja, sem flest atkvæði hlutu.

Þeir eru Bronislaw Komorowski þingforseti, sem hefur gegnt forsetaembættinu síðan Lech Kaczynski fórst í flugslysi í apríl, og Jaroslaw Kaczynski, sem er fyrrverandi forsætisráðherra og eineggja tvíburabróðir hins látna forseta.

Átta aðrir frambjóðendur voru í kjöri, en þeir falla nú brott.

Samkvæmt fyrstu útgönguspám hlaut Komorowski 45,7 prósent atkvæða og Kaczynski 33,2 prósent. Samkvæmt annarri útgönguspá hlaut Komorowski 41,2 prósent en Kaczynski 35,8 prósent. Opinber úrslit verða væntanlega birt í dag.

Útgönguspárnar sýna að í þriðja sæti kom frambjóðandi vinstri- og miðjumanna, Grzegorz Napieralski, sem fékk um 13,5 prósent. Stjórnmálaskýrendur segja afar ólíklegt að þeir sem kusu hann muni greiða hægrimanninum Kaczynski atkvæði sitt.

- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×