Lífið

Svavar Knútur í teygjustökki í Ástralíu

Svavar Knútur er nýkominn heim frá Ástralíu þar sem hann dvaldi í fimm mánuði og hitti meðal annars þessa kengúru.
Svavar Knútur er nýkominn heim frá Ástralíu þar sem hann dvaldi í fimm mánuði og hitti meðal annars þessa kengúru.
„Þetta var yndislegt ferðalag, fullt af áhugaverðum uppákomum,“ segir tónlistarmaðurinn Svavar Knútur sem er nýkominn heim úr fimm mánaða tónleikaferð um Ástralíu. Þar spilaði hann á hátt í fimmtíu tónleikum bæði í smábæjum og í borgum á borð við Perth, Sidney og Melbourne. „Ég fór í teygjustökk í fyrsta skipti á ævinni, sem ég hefði aldrei trúað að ég myndi gera. Maður veit sjaldan eins mikið að maður er á lífi eins og eftir svona reynslu,“ segir hann.

Kærasta Svavars flaug til Ástralíu í desember og ákvað hann að elta hana út í janúar með aðstoð samtakanna Alþjóðlega trúbadorasamsærið. „Maður gat sett sig í samband við þetta samskiptanet. Fólk fór bara að undirbúa tónleika og við fengum að gista hjá vinum. Það gerir mann auðmjúkan þegar maður finnur hvað maður á góða að alls staðar.“

Svavar er að undirbúa aðra ferð til Ástralíu á næsta ári, sem verður reyndar styttri en þessi. „Þeir vilja fá að dreifa plötunum mínum og fá mig í almennilega tónleikaferð,“ segir hann og hlakkar til að endurnýja kynni sín af andfætlingum okkar.

Svavar hefur í nógu að snúast því eftir tvær vikur fer hann til Toronto og spilar á tónlistarhátíðinni North By Northwest. Sumarið verður síðan undirlagt af tónleikum hér heima. „Besta ákvörðun sem ég hef tekið er að hætta í dagvinnunni og vera listamaður. Maður þarf ekkert mikið til að lifa og þetta er stórskemmtilegt,“ segir hann. „Þetta er líka miklu erfiðari vinna en ég hef áður unnið og það er það sem ég fíla. Það er gaman að vera alltaf á kafi í vinnu.“ -fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.