Skoðun

Athugasemd vegna frétta af fangaflugi

Kristrún Heimisdóttir skrifar

Aðgerðir utanríkisráðuneytisins gegn fangaflugi hófust í júní 2007, strax eftir komu nýs ráðherra en formaður VG lagði fyrirspurn um fangaflugið fram á Alþingi fimm mánuðum síðar eða í nóvember 2007. Aðgerðir ráðuneytisins höfðu þannig ekkert með málflutning VG að gera eins og sést vel á samtímaheimildum um þingumræður.

Tilefni aðgerðanna var fylgiskjal 3 með nýrri skýrslu um leynilega frelsissviptingu og ólögmæta flutninga fanga sem kom út 8. júní á vettvangi Evrópuráðsins og kennd var við svissneska þingmanninn Dick Marty. Hvorki þingmenn né fjölmiðlar hér á landi veittu fylgiskjalinu athygli.

Utanríkisráðherra setti starfshóp ráðuneytisins til verka við að skoða hvort loftför sem sönnunargagnasafn Evrópuráðsins tók til hefðu komið við hér á landi og í framhaldinu var skipaður samráðshópur utanríkis-, dómsmála- og samgönguráðueytis sem með hliðsjón m.a. af tilmælum Evrópuráðsins og Amnesty International lagði línur um leit í öllum flugvélum sem kæmu hingað til lands framvegis. Var samstarfið við flugmálstjórnir,flugstoðir, tollstjóraembætti, lögregluna og önnur stjórnvöld mjög gott og allir samtaka um aðgerðir. Þannig yrðu lendingar fangaflugvéla hér á landi fyrirbyggðar til framtíðar.

Skýrsla um meint fangaflug var gerð opinber í nóvember 2007 og fjallaði Kastljós t.d. ítarlega um hana. Í nóvember 2008 reyndi skyndilega á leitina í flugvélum þegar Sjónvarpið flutti fyrstu frétt af fangaflugvél á Reykjavíkurflugvelli. Í ljós kom að leitað hafði verið í vélinni eins og ráð var fyrir gert og staðfest að ekki var um fangaflug að ræða.

Síðar sama vetur gerði danska sjónvarpið sér sérstaka ferð hingað til lands til að gera frétt um aðgerðir íslenskra stjórnvalda. Í fréttaþættinum 21 Söndag voru þær teknar sem fordæmi fyrir dönsku ríkisstjórnina sem þá lá undir ámæli.

Við munum sennilega ekki vita með óyggjandi hætti hvort ólögmætt fangaflug fór um Ísland á tímabilinu fyrr en Bandaríkjastjórn og leyniþjónusta hennar kjósa að láta það uppi eða einhver ákveður að leka óyggjandi heimildum þar um - og tekst það. Aðgerðir Íslands gerðu það hins vegar miklum mun ólíklegra að Bandaríkjamenn reyndu að nota íslenska flugvelli í þessum tilgangi.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Vel gert!

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×