Erlent

Fjórtán fallnir eftir loftárás

Pakistanskur hermaður leitar á mönnum skammt frá landamærum Afganistans. Fréttablaðið/AP
Pakistanskur hermaður leitar á mönnum skammt frá landamærum Afganistans. Fréttablaðið/AP
Fjórtán manns féllu í Pakistan í gær í loftárás sem gerð var með ómönnuðum loftförum á vegum bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Þrjár loftárásir hafa verið gerðar síðan upp komst um tilraun til að fremja hryðjuverk með bílasprengju í New York í byrjun maímánaðar.

Fullyrt er að hinir föllnu hafi allir verið uppreisnarmenn í Waziristan-héraði, en það hefur ekki fengist staðfest. Stjórnvöld í Pakistan mótmæla formlega árásunum, en talið er að árásirnar séu í raun gerðar með þeirra leyfi og aðstoð. Waziristan er hérað við landamæri Pakistans og Afganistans, og er í raun stjórnað af höfðingjum ættbálka á svæðinu frekar en pakistönskum stjórnvöldum. Bandarísk stjórnvöld hafa undanfarið aukið þrýsting sinn á pakistönsk stjórnvöld um að hefja hernaðaraðgerðir í héraðinu til að draga úr áhrifum Al-Kaída hryðjuverkasamtakanna.

Talið er að aukin áhersla bandarískra stjórnvalda á árásir í Pakistan standi í beinu samhengi við tilraun til að fremja hryðjuverk á Times-torgi í New York 1. maí síðastliðinn. Maður grunaður um verknaðinn hefur verið handtekinn, og hefur hann sagst hafa fengið þjálfun í Waziristan.- bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×