Erlent

Þreyttir á hálfnöktum ferðamönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Íbúar og yfirvöld í Barcelona vilja að ferðamenn klæði sig áður en þeir yfirgefa ströndina. Mynd/ AFP.
Íbúar og yfirvöld í Barcelona vilja að ferðamenn klæði sig áður en þeir yfirgefa ströndina. Mynd/ AFP.
Íbúar og yfirvöld í Katalóníu eru orðin þreytt á að horfa upp á hálfnakta ferðamenn í miðborg Barcelona. Því stendur til að að grípa til aðgerða gegn fólki sem sprangar um helstu götur borgarinnar í baðskýlum og bikini.

Borgarfulltrúi í Barcelona segir í samtali við katalónska blaðið El Periodico de Catalunya að taka verði tillit til eldra fólks og barnafólks sem á erindi um miðborgina í mesta sakleysi sínu. Það eigi ekki að þurfa að mæta fólki á baðfötunum einu klæða. Blaðið segir líka að enginn sómakær maður vilji hitta ferðamenn á baðfötunum í almenningsvögnum. Þá séu veitingahúsaeigendur einnig orðnir þreyttir á því að fá léttklætt fólk til sín eftir sjóböð.

Borgaryfirvöld hafa því ákveðið að hrinda af stað sérstöku átaki til að hvetja ferðamenn til að klæða sig sómasamlega áður en þeir yfirgefa ströndina. Ákaft hefur verið kallað eftir því að settar verði reglur sem hreinlega banni fólki að spranga um fáklætt en svo langt vilja borgaryfirvöld ekki ganga - ennþá að minnsta kosti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×