Handbolti

Arnór markahæstur af þeim sem eru enn á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason hefur verið frábær á EM í Austurríki.
Arnór Atlason hefur verið frábær á EM í Austurríki. Mynd/DIENER

Arnór Atlason er í áttunda sæti yfir markahæstu leikmenn á Evrópumótinu í Austurríki með 31 mark (33 mörk) í 6 leikjum en Tékkinn Filip Jicha er langmarkahæstur með 53 mörk. Arnór er hinsvegar efstur af þeim leikmönnum sem eiga eftir að spila og getur því hækkað sig á listanum í lokaleikjum íslenska liðsins.

Arnór hefur skorað marki meira en Spánverjinn Alberto Entrerrios sem á aðeins eftir að spila einn leik á EM, á móti Dönum í leiknum um fimmta sætið. Næsti maður á eftir Arnóri af þeim sem eiga eftir að spila tvo leiki á EM er Króatinn Ivan Cupic sem hefur skorað 30 mörk.

Næstu fjórir sem eiga eftir tvo leiki eru síðan allt félagar Arnórs í íslenska landsliðinu. Snorri Steinn Guðjónsson og Róbert Gunnarsson hafa báðir skorað 27 mörk og þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson hafa báðir skorað 26 mörk.

Hér er farið eftir opinberri tölfræði mótsins en í henni vantar Arnóri tvö mörk og þá vantar einnig mark á Ólaf Stefánssyni. Snorri Steinn og Róbert hafa hinsvegar fengið einu marki of mikið skráð á sig. Guðjón Valur Sigurðsson er því sá eini af þessum fimm sem eru með rétta tölu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×