Erlent

Vanhæfum forseta kennt um

Á fimmtudaginn efndi hópur íbúa til mótmæla fyrir utan forsetahöllina í Port-au-Prince.fréttablaðið/AP
Á fimmtudaginn efndi hópur íbúa til mótmæla fyrir utan forsetahöllina í Port-au-Prince.fréttablaðið/AP
Bandaríska rannsóknarstofnunin RAND dregur upp ófagra mynd af ástandinu á Haítí, rúmu hálfu ári eftir að jarðskjálftinn mikli reið þar yfir.

Í nýútkominni skýrslu stofnunarinnar segir að þótt neyðarhjálp hafi borist óvenju skjótt hafi uppbyggingarstarf í kjölfar jarðskjálftans gengið afar hægt fyrir sig. Meðal annars hafi lítið miðað í hreinsunarstarfi og margar mikilvægar ákvarðanir hafi beðið alltof lengi.

Í skýrslunni er farið yfir alvarlegar brotalamir í samfélaginu á Haítí, sem margar hverjar voru til staðar löngu fyrir jarðskjálftann. Þar á meðal er talað um óhæfa starfsmenn hins opinbera, almennt virðingarleysi fyrir lögunum, hryllileg fangelsi, vanhæfa lögreglu og erfitt viðskiptaumhverfi.

Áður hefur meðal annars utanríkismálanefnd Bandaríkjaþings sagt Rene Preval, forseta Haítí, vera afkastalítinn leiðtoga sem hafi tafið fyrir uppbyggingu samfélagsins í kjölfar jarðskjálftans.

„Preval vill vel, en hann er óákveðinn að eðlisfari,“ segir James Dobbins frá RAND. „Við erum að horfa upp á afleiðingar þess.“- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×