Erlent

Krefjast bóta af klámhundum

Bandarískur lögreglumaður fylgist með samskiptum á netinu. nordicphotos/AFP
Bandarískur lögreglumaður fylgist með samskiptum á netinu. nordicphotos/AFP
Tvítug bandarísk kona, sem nefnd er Amy í dóm­skjölum, krefst þess að fá bætur frá hundruðum sakborninga, sem höfðu í fórum sínum barnaklámmyndir sem frændi hennar tók af henni fyrir rúmum áratug.

Þótt frændi hennar hafi hlotið dóm fyrir afbrot sín eru myndirnar af Amy enn í dag meðal þeirra sem útbreiddastar eru í heimi barnaníðinga.

„Ég vil að þessu verði öllu eytt. Ég vil að þetta hætti. En ég get ekkert gert til að stöðva þetta, ekki frekar en ég gat stöðvað frænda minn,“ segir Amy.

Fjölmörg önnur fórnarlömb barnakláms í Bandaríkjunum hafa einnig leitað til dómstóla til að fá bætur frá notendum barnakláms.

Dómarar víðs vegar um Bandaríkin þurfa því á næstunni að taka afstöðu til nýrra spurninga í tengslum við barnaklámsmál: Hvort einstaklingur sem hefur í fórum sínum klámfengna mynd af barni eigi að teljast meðábyrgur fyrir þjáningum barnsins, og hve háa upphæð eigi þá að láta hann greiða.

Frumkvæði í þessum efnum kom frá dómara í Connecticut fyrir fáeinum vikum þegar hann hugðist gera einum eiganda slíkra mynda skylt að greiða Amy 200 þúsund dali. Áður en dómur var kveðinn upp var þó samið um að sá maður myndi borga henni 130 þúsund dali.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×