Erlent

Írar sæta harðri gagnrýni vegna fóstureyðinga

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að fóstureyðingabann brjóti í bága við réttindi kvenna:
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að fóstureyðingabann brjóti í bága við réttindi kvenna:

Stjórnarskrárbann við fóstureyðingum á Írlandi brýtur í bága við réttindi þungaðra kvenna. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þessari niðurstöðu í gær og gagnrýnir írsk stjórnvöld harðlega.

Bann við fóstureyðingum er í stjórnarskrá Írlands. Samkvæmt gömlum lögum frá árinu 1861 er hægt að lögsækja bæði lækni og sjúkling fyrir morð ef fóstureyðing reynist ekki hafa verið lífsnauðsynleg. Þó úrskurðaði Hæstiréttur Írlands árið 1992 að konur í lífshættu ættu að fá að fara í fóstureyðingu á Írlandi í stað þess að þurfa að ferðast til Englands eða lengra.

Lagadeilan hefur staðið yfir í átján ár og fjölmargar konur hafa þurft að ferðast milli landa vegna fóstureyðinga. Dómarar Mannréttindadómstólsins sögðu rangt af Írum að viðhalda lagalegri óvissu.

Málið sem nú var dæmt í hefur verið í vinnslu í fimm ár. Þrjár konur, sem þurftu að fara úr landinu til að fara í fóstureyðingar, kærðu írsk stjórnvöld. Ein kvennanna átti fjögur börn fyrir og öll voru þau í fóstri annars staðar. Önnur vildi ekki verða einstæð móðir, og sú þriðja var frá Litháen en var stödd í Írlandi vegna sjaldgæfs krabbameins. Ekki þótti sýnt fram á nægjanlega hættu á heilsu fyrstu kvennanna tveggja. Sú þriðja var hins vegar í lífshættu og voru írsk stjórnvöld dæmd til að borga henni fimmtán þúsund evrur í skaðabætur.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×