Erlent

Veiðiferð endaði hörmulega

Ted Stevens er til vinstri en meðal þeirra sem komust af er fyrrum forstjóri bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, Sean O‘Keefe, til hægri. Nordicphotos/AFP
Ted Stevens er til vinstri en meðal þeirra sem komust af er fyrrum forstjóri bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, Sean O‘Keefe, til hægri. Nordicphotos/AFP
Fyrrum öldungadeildarþingmaður á bandaríska þinginu, repúblikaninn Ted Stevens, var á meðal þeirra sem létust í flugslysi í Alaska á mánudag.

Níu manns voru um borð í vélinni og var hópurinn á leið í laxveiði eftir að hafa borðað hádegismat í veiðihúsi. Orsök slyssins er ekki ljós en svo virðist sem vélin hafi flogið beint á fjall eftir að hafa lent í þoku og rigningu. Skilyrði til flugs munu vera erfið á þessum slóðum. Slysið átti sér stað í grennd við bæinn Dillingham í suðvesturhluta Alaska.

Auk Stevens létust fimm aðrir, flugmaðurinn þar á meðal og sextán ára unglingur. Talsvert hefur verið fjallað um slysið í bandarískum fjölmiðlum og það rifjað upp að Ted Stevens, sem var 85 ára gamall, lifði af flugslys í Alaska árið 1978 en þá lést kona hans, Ann. - sbt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×