Handbolti

Sverre: Alltaf skrýtið að spila gegn Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Sverre Andreas Jakobsson og Ingimundur Ingimundarson hafa staðið sig vel í vörninni.
Sverre Andreas Jakobsson og Ingimundur Ingimundarson hafa staðið sig vel í vörninni. Mynd/DIENER

Sverre Andreas Jakobsson var eins og aðrir í íslenska liðinu himinlifandi með sigur Íslands á Noregi á EM í handbolta í gær. Með sigrinum komst Ísland áfram í undanúrslit mótsins.

Sverre er sjálfur norskur í aðra ætt og sagði við Vísi eftir leikinn í gær að það væri alltaf skrýtið fyrir sig að mæta Norðmönnum.

„Það er vissulega skrýtið enda ber maður taugar til lands og þjóðar," sagði Sverre. „En maður verður víst að halda með því liðið sem maður spilar með," bætti hann við og brosti.

„En Norðmenn eru með flott lið og þeir eiga eftir að ná langt í stórmóti í framtíðinni - ég efast ekki um það."

Hann segir varnarleik íslenska liðsins í gær hafa verið góðan.

„Mér fannst það. Við vorum að vísu að fá á okkur mikið af mörkum en þetta var hraður leikur og fullt af sóknum. Þeir keyrðu á okkur og við á þá. Við vorum kannski aðeins of varkárir undir lokin en það var vegna þess að við vildum ekki missa mann út af."

„Við vissum að jafnteflið myndi nægja og því vildum við reyna að vera skynsamir. Það var þó hart barist og þetta var hörkuleikur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×