Lífið

Gagnrýnandi Kiljunnar gagnrýnir í Kiljunni

Egill Helgason bætir í Kiljuna.
Egill Helgason bætir í Kiljuna.

Haukur Ingvarsson, Illugi Jökulsson og Þorgerður E. Sigurðardóttir bætast í hóp gagnrýnenda Kiljunnar sem hefur göngu sína aftur á RÚV í haust. Páll Baldvin Baldvinsson og Kolbrún Bergþórsdóttir verða á sínum stað auk þáttastjórnandans Egils Helgason sem er ánægður með viðbótina.

„Illugi verður fyrir áramót með Þorgerði og Haukur kemur síðan í staðinn fyrir hann og verður með okkur eftir áramót," segir Egill en ráðgert er að gagnrýnendapörin skipti þáttunum nokkuð bróðurlega á milli sín.

Það vekur hins vegar mestu athyglina að Haukur, þekktastur fyrir snarpa menningarrýni sína í útvarpsþættinum Víðsjá, skuli hafa orðið fyrir valinu því hann fór ekki fögrum orðum um bókmenntagagnrýnina í Kiljunni fyrir rösku ári í áðurnefndum útvarpsþætti. Egill kveðst ekki hafa heyrt þá gagnrýni.

Haukur Ingvarsson.
„Nei, mér finnst Haukur fyrst og fremst skemmtilegur og snjall strákur. Ég hef lesið eftir hann og hann hefur komið í þáttinn til mín," segir Egill.

Haukur er nú í rithöfundarleyfi og á þar að auki von á sínu fyrsta barni. Hann segist aldrei hafa haft neinn sérstakan áhuga á að fara í sjónvarp. „En það hefði líka verið hallærislegt að taka ekki þessu boði. Maður getur ekki bara setið og gagnrýnt út í eitt án þess að vilja sjálfur taka þátt." - fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.