Erlent

Úlfurinn reyndist vera fyrirsæta

Myndin sem Jose tók.
Myndin sem Jose tók.

Ljósmynd af úlfi sem Jose Luis Rodriguez tók mynd af sigraði hina virtu ljósmyndakeppni Wildlife Photographer of the Year. En nú er babb komið í bátinn. Myndin, sem fylgir fréttinni, hefur verið dæmd úr leik þar sem grunur leikur á um að úlfurinn sé alls ekki villtur, heldur fyrirsæta.

Eigendur keppninnar eru Natural History Museum og BBC Wildlife Magazine. Myndin var valin úr þúsundum mynda og þótti einstök. Síðar vaknaði grunur um að úlfurinn væri ekki jafn villtur og ljósmyndarinn vildi láta uppi.

Rannsóknarnefnd var sett á laggirnar og eftir ítarlega rannsókn var niðurstaðan sú að úlfurinn væri þjálfaður.

Sjálfur neitar ljósmyndarinn þessum ásökunum.

Atvikið er mikið áfall fyrir keppnina sem þykir sú virtasta sinnar tegundar í heiminum. Verðlaunaféð eru 10 þúsund pund en þau hafði ljósmyndarinn ekki fengið afhent, og fær væntanlega ekki úr þessu.

Dómnefndin hefur ákveðið að tilnefna ekki aðra mynd þetta árið, þar sem hún styðst við samanburð við allar myndirnar þegar hún tekur ákvörðun um sigurmyndina. Niðurstaðan yrði því ávallt skökk að mati forsvarsmanna keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×