Viðskipti innlent

Loðnuvertíðin gaf HB Granda hátt í tvo milljarða

Vinnslustöð HB Granda á Akranesi. Myndin er á heimasíðu fyrirtækisins.
Vinnslustöð HB Granda á Akranesi. Myndin er á heimasíðu fyrirtækisins.
Lauslega reiknað gaf loðnuvertíðin HB Granda hátt í tvo milljarða kr. í afurðaverðmæti. Loðnukvóti skipa HB Granda á þessari stuttu loðnuvertíð var um 20.500 tonn.

Á heimasíðu HB Granda er fjallað um vertíðarlokin og þar segir að með því að skipuleggja veiðarnar og senda Víking til veiða með hinum skipunum þremur var hægt að nýta allan loðnukvóta félagsins til hrognatöku og frystingar á hrognum fyrir markaði í Japan og Austur-Evrópu.

Eggert B. Guðmundsson forstjóri HB Granda segir að það sé ánægjulegt að þeim hafi tekist að hámarka verðmæti loðnukvóta síns með þessum hætti. Hann segir að ekki sé hægt að greina frá verðmæti þeirrar loðnu sem HB Grandi vann úr þar sem endanleg afurðaverð liggi ekki fyrir.

Það hefur verið þumalputtaregla að reikna með að loðnutonn til hrognatöku gefi af sér um 100.000 kr. Tonnið til frystingar gefi af sér um 70.000 kr. og tonnið til bræðslu um 45 þúsund kr. Þar sem allur kvóti HB Granda fór til frystingar og hrognatöku má gróflega áætla að afurðaverðmæti hans liggi á bilinu 1,6 til 1,7 milljarðar kr..

Kunnugir áætla að í heildina hafi um 80% af loðnukvótanum farið í hrognatöku og frystingu á þessari vertíð. Með sömu þumalputtareglu má gróflega áætla að afurðaverðmæti kvótans í heild hafi numið rúmum 11 milljörðum kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×