Erlent

Reyna allt til að hindra svindl

Kjörkassar fluttir niður í Pansjírdal norðaustan við höfuðborgina Kabúl. fréttablaðið/AP
Kjörkassar fluttir niður í Pansjírdal norðaustan við höfuðborgina Kabúl. fréttablaðið/AP
Mikill viðbúnaður lögreglu og hers er í Afganistan vegna þingkosninga, sem haldnar verða þar í dag. Óttast er að andstæðingar bæði stjórnvalda og erlenda herliðsins reyni að trufla framkvæmdina með ofbeldi og hótunum.

Hamid Karzai forseti hvatti landsmenn til að taka þátt í kosningunum þrátt fyrir hótanir talibana og annarra uppreisnarhópa. Átök í tengslum við væntanlegar kosningarnar hafa á síðustu dögum kostað nokkra tugi manna lífið.

Erlenda herliðið mun fylgjast með framkvæmd kosninganna til að koma í veg fyrir kosningasvindl, en ásakanir um slíkt í forsetakosningunum á síðasta ári urðu til þess að veikja mjög stöðu forsetans.

Richard Holbrooke, sendifulltrúi Bandaríkjastjórnar í Afganistan og Pakistan, sagðist gera sér fulla grein fyrir því að kosningarnar verði ekki fullkomnar.

Nú í vikunni bárust fréttir af því að verulegt magn af fölsuðum kjörseðlum hafi fundist í Pakistan, skammt frá landamærum ríkjanna.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×