Handbolti

Björgvin Páll: Hver mistök voru dýr

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Björgvin Páll Gústavsson lék vel á móti Frökkum en það dugði ekki til.
Björgvin Páll Gústavsson lék vel á móti Frökkum en það dugði ekki til. Mynd/AFP

Björgvin Páll Gústavsson átti fínan dag í marki íslenska liðsins er liðið tapaði fyrir Frökkum, 36-28, í undanúrslitum Evrópumeistaramótsins í handbolta.

„Við gerðum margt rétt í fyrri hálfleik en þeir skoruðu kannski of mikið af óþarfa mörkum. Okkur leið samt ágætlega í hálfleik og okkur fannst bara vanta herslumuninn til að brúa bilið."

„En svo gerðum við klaufaleg mistök á 10-12 mínútna kafla þar sem þeir keyrðu allt í botn og refsuðu fyrir hver mistök sem voru mjög dýr í dag."

Hann segir að það hafi verið erfitt fyrir sig að ná sér á strik á þessum kafla.

„Maður dettur úr stuðinu þegar það koma mikið af hraðaupphlaupum á mann og það er mjög erfitt að eiga við það. Maður fær enga þægilega bolta sem maður á að verja."

Hann segir að það hafi verið afar erfitt að eiga við Nikola Karabatic í dag.

„Hann er einn sá besti í heimi en mér fannst við samt ekki gera honum lífið nógu leitt. Við vorum alls ekki nógu duglegir að brjóta á honum. En það er erfitt vegna þess að hann er stór og mikill."

„Þar að auki datt bara allt inn hjá honum og þegar hann á góðan dag er erfitt að stoppa hann."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×