Viðskipti innlent

Orkuveita Reykjavíkur tapaði 2,5 milljörðum í fyrra

Rekstrarhagnaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR) fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, árið 2009 var 13,0 milljarðar króna. Að teknu tilliti til þeirra þátta nemur halli af rekstrinum 2,5 milljörðum króna og ræðst það að mestu af 7,6% veikingu íslensku krónunnar frá upphafi til loka árs. Á árinu 2008 varð halli að fjárhæð 73,0 milljarðar króna af rekstrinum.

Þetta kemur fram í tilkynningu um uppgjör OR í fyrra. Verulegur viðsnúningur varð í afkomu Orkuveitu Reykjavíkur á síðasta fjórðungi ársins 2009, eins og fram kemur í ársreikningi fyrirtækisins, sem samþykktur var í dag. Hagnaður af rekstrinum síðustu þrjá mánuði ársins nam um 8,8 milljörðum króna. Hagstæð þróun álverðs veldur þar miklu.

Vaxandi tekjur fyrirtækisins í erlendri mynt gera því kleift að standa undir greiðslum af erlendum lántökum þrátt fyrir miklar gengissveiflur.

Rekstrartekjur ársins námu 26 milljörðum króna en voru 24.2 milljarðar króna árið áður.

Heildareignir þann 31. desember 2009 voru 281.5 milljarðar króna en voru 259.4 milljarðar króna 31. desember 2008. Eigið fé þann 31. desember 2009 var 40.7 milljarðar króna en var 48.4 milljarðar króna 31. desember 2008.

Heildarskuldir fyrirtækisins þann 31. desember 2009 voru 240.9 milljarðar króna samanborið við 211 milljarða króna í árslok 2008.

Eiginfjárhlutfall var 14,4% þann 31. desember 2009 en var 18,6% í árslok 2008.

Þrátt fyrir umrót á íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum er rekstur Orkuveitu Reykjavíkur traustur. Áfram er unnið að stækkun Hellisheiðarvirkjunar. Áformað er að taka 4. áfanga hennar, framleiðslu á heitu vatni, í notkun undir lok yfirstandandi árs og 5. áfanga virkjunarinnar, framleiðslu á 90 MW rafafls, síðla árs 2011.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×