Erlent

Yfirhershöfðingi talibana handtekinn

Óli Tynes skrifar

Bandaríska dagblaðið New York Times segir að Múlla Baradar hafi verið handtekinn í borginni Karachi í Pakistan fyrir nokkrum dögum, en dregið að skýra frá því þartil nú. Hann er sagður til yfirheyrslu í Karachi.

Baradar er næst æðsti leiðtogi talibana á eftir múllanum Ómari, sem hefur verið í felur síðan hryðjuverkaárásin var gerð á Bandaríkin árið 2001.

Hann er æðsti yfirmaður herja talibana og hæst setti leiðtogi þeirra sem hefur verið handtekinn síðan innrás var gerð í Afganistan og stjórn þeirra steypt af stóli.

New York Times segir að það hafi verið pakistanska leyniþjónustan sem handtók Baradar, en að liðsmenn bandarísku leyniþjónustunnar hafi verið þar viðstaddir.

Bandarískir embættismenn neita að tjá sig um hvort Baradar sé að leysa frá skjóðunni, en segja að handtaka hans geti leitt til handtöku annarra háttsettra leiðtoga, jafnvel Ómars.

Talibanar hafa neitað því að Baradar hafi verið handtekinn. Þeir segja að hann sé enn í Afganistan og skipuleggi hernaðaraðgerðir gegn sókn NATO herjanna sem hófst um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×