Erlent

Þjóðlífið lamað í sólarhring

Mótmæli í Aþenu „Ég borga ekki“ stendur á borðanum sem fólkið heldur fyrir framan sig.nordicphotos/AFP
Mótmæli í Aþenu „Ég borga ekki“ stendur á borðanum sem fólkið heldur fyrir framan sig.nordicphotos/AFP
Opinber þjónusta lá nánast algerlega niðri í Grikklandi í gær þegar efnt var til sólarhrings verkfalls til að mótmæla fyrirhuguðum aðhaldsaðgerðum stjórnvalda.

Einungis lágmarksstarfsemi var haldið uppi á sjúkrahúsum, en læknar, kennarar, flugumferðarstjórar, tollafgreiðslumenn og aðrir opinberir starfsmenn mættu ekki til vinnu.

George Papandreou forsætisráðherra og ríkisstjórn hans glíma við gífurlegan skuldavanda ríkisins og hafa kynnt aðhaldsaðgerðir sem felast í því að laun ríkisstarfsmanna verða fryst, hætt verður að ráða í stöður sem losna, kaupaukar og styrkir falla niður auk þess sem eftirlaunaaldur verður hækkaður um tvö ár, úr 61 í 63 ára.

„Þetta er stríð gegn starfsfólkinu og við ætlum að svara með stríði, með stanslausri baráttu þangað til þessi stefna verður aflögð,“ segir Christos Katsiotis, fulltrúi verkalýðsfélags sem tengist kommúnistaflokki landsins.

Papandreou forsætisráðherra segist hins vegar staðráðinn í að halda áfram með aðhaldsaðgerðirnar.

Óvenju lítil þátttaka var í tveimur mótmælagöngum, sem efnt var til í höfuðborginni Aþenu í gær. Um sjö þúsund manns mættu til leiks, en algengt er að tugir þúsunda taki þátt í mótmælafundum á vegum verkalýðsfélaganna. - gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×