Innlent

Þeir skutu á sofandi fólk

„Í skipinu þar sem ég var fundu þeir eitt einasta vopn og það var rakhnífurinn minn.“
„Í skipinu þar sem ég var fundu þeir eitt einasta vopn og það var rakhnífurinn minn.“
„Þeir skutu á sofandi fólk," segir sænski rithöfundurinn Henning Mankell, höfundur bókanna um lögregluforingjann Wallander. „Okkur var rænt."

Hann var í hópi yfir 600 manna frá yfir tuttugu þjóðum sem voru í skipalest sem Ísraelsher réðist á þegar hún var á leið með hjálpargögn til Gasa.

Mankell kom til Gautaborgar í gær eftir að hafa verið sleppt úr haldi ásamt þremur öðrum úr hópi ellefu Svía. Níu manns, fjórir þeirra Tyrkir, biðu bana í árás Ísraelshers á eitt skipanna. Alls var um 120 manns úr hópnum vísað frá Ísrael í gær og 500 til viðbótar biðu brottvísunar.

Aðgerðir Ísraelsmanna gegn skipinu hafa verið fordæmdar víða á alþjóðavettvangi. Tyrkir hafa kallað sendiherra sinn heim frá Ísrael. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir ástandið á Gasa „ósjálfbært", að sögn BBC. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, telur koma til greina að Íslendingar slíti stjórnmálasambandi við Ísrael í kjölfar atviksins.

Ísrael hefur haldið uppi hafnbanni frá því Hamas komst til valda á Gasa. Innflutningur er nú fjórðungur þess sem var fyrir þremur árum. Fimmtán hundruð þúsund íbúa skortir nauðþurftir. -pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×