Lífið

Fjörugt sumar í vændum

Margrét Kaaber, millistjórnandi Listhópa Hins hússins, segir marga skemmtilega hópa taka þátt í starfinu í sumar.
Margrét Kaaber, millistjórnandi Listhópa Hins hússins, segir marga skemmtilega hópa taka þátt í starfinu í sumar. Fréttablaðið/vilhelm
Þrátt fyrir niðurskurð og fækkun stöðugilda munu listhópar Hins hússins halda áfram að auðga miðborgarlífið með skemmtilegum uppákomum. Uppistandshópur er meðal þess sem verður í boði.

Listhópar Hins hússins hafa sett svip sinn á miðbæ Reykjavíkur undanfarin ár og verður engin breyting þar á nú í sumar. Fimmtán hópar fá tækifæri til að sinna liststarfi á vegum Hins hússins að þessu sinni og munu þeir standa fyrir ýmsum skemmtilegum uppákomum í miðbæ Reykjavíkur yfir hásumartímann.

Síðasta sumar reyndist nauðsynlegt að fækka stöðugildum sumarhópanna niður í 25 vegna niðurskurðar en áður höfðu stöðugildin verið allt frá fjörutíu og upp í sjötíu talsins. Hægt var að koma í veg fyrir enn frekari niðurskurð í ár vegna aukafjárveitingar og því eru stöðugildin þau sömu og þau voru í fyrra. „Fimmtán hópar voru valdir í verkefnið, þar af eru fjórir tónlistarhópar, fjórir danshópar, þrír listhópar auk leiklistar- og uppistandshópa, svo eitthvað sé nefnt. Þessir hópar munu svo standa fyrir þessum hefðbundnu uppákomum auk Föstudagsfiðrildanna og auðvitað uppskeruhátíðarinnar sem fer fram í Ráðhúsinu um miðjan júlí,“ útskýrir Margrét Kaaber, millistjórnandi Listhópa Hins hússins. Margrét bendir þó á að hóparnir séu fleiri í ár en þeir voru í fyrra, en þá voru aðeins átta listhópar starfræktir yfir sumarið.

Meðal þeirra hópa sem munu skemmta gestum og gangandi í sumar má nefna danshópinn Dansandi drengi en að honum standa fjórir dansandi drengir, ljóðahópinn Ljóðverk sem mun leitast við að endurvekja áhuga fólks á íslenskum skáldskap og teiknimyndahópinn Gottskálk þrumdi þetta af sér, en markmið hópsins er að koma íslenskum þjóðsögum í myndrænt form. Af þessu að dæma verður ýmislegt forvitnilegt og skemmtilegt á seyði í miðbæ Reykjavíkur í sumar. - sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.