Erlent

Bandarískum trúboða í Norður-Kóreu veitt frelsi

Robert Park.
Robert Park.

Trúboðanum Robert Park var sleppt úr haldi Norður-Kóreu og er nú í Kína. Robert var handtekinn í Norður-Kóreu á jóladag á síðasta ári þegar hann kom fótgangandi yfir frosnu ána Tumen.

Robert, sem er 28 ára, er bandarískur ríkisborgari búsettur í Arizona en hann er af asískum uppruna.

Hann virðist hafa farið til Norður-Kóreu með bréf til leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-il, en í því kom fram að hann vildi að leiðtoginn virti mannréttindi borgara sinna.

Fréttastofur í Norður-Kóreu, sem eru vægast sagt hlutdrægar, hafa flutt fréttir af því að Park hafi komið til landsins uppfullur af vestrænum áróðri um að leiðtogar Norður-Kóreu færu illa með almenning. Hann hafi hinsvegar verið fullvissaður um, og reyndar játað sjálfur, að trúfrelsi og mannréttindi séu í hávegum höfð í Norður-Kóreu.

Áætlað er að Robert komi til Bandaríkjanna í dag en hann hefur ekki tjáð sig við fjölmiðla enn.

Athygli vekur að Robert er þriðji Bandaríkjamaðurinn sem er handtekinn af yfirvöldum í Norður-Kóreu á einu ári. Áður voru tvær blaðakonur handteknar fyrir að smygla sér inn í landið. Þær voru dæmdar í tólf ára þrælkunarvinnu fyrir það brot.

Það var ekki fyrr en fyrrum forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, kom til Norður-Kóreu sem fallist var á að sleppa konunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×