Skoðun

Elías Pétursson: Af kaupfélagsmálum Framsóknar

Elías Pétursson skrifar
Fyrir áratugum síðan fékk Kaupfélag Kjalarnesþings lóð við Vesturlandsveginn gamla. Byggðu þeir Samvinnumenn þar verslunarhús o.fl. af hugsjón þeirra manna sem vilja vinna samfélagi sínu gagn. Ekki vegna þess að þá hafi langað að efnast á kostnað samborgaranna heldur vegna þess að þessum framsýnu mönnum rann til rifja sú aðstaða sem pöplinum var sköpuð til aðfanga nauðsynjavöru.

En ágætu Mosfellingar, nú er sú Snorrabúð stekkur, því ef marka má það sem ég hef lesið og kynnt mér þá virðist Kaupfélagið vera undir „eignarhaldi" örfárra manna - manna sem virðast hafa yfirgefið hina góðu hugsjón samvinnu og samfélags. Manna sem virðast líta á Kaupfélag Kjalarnesþings sem sinn prívat sparibauk.

Eftir skoðun þykir mér einsýnt að þessir frekar aumu fulltrúar samvinnuhugsjónarinnar njóti nú aðstoðar bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins við að seilast í vasa skattborgara í Mosfellsbæ. Ég mun ekki standa hjá og láta það óátalið að bæjarfulltrúi nýti sér stöðu sína til aðdráttar fyrir sig eða klíkufélaga sína.

Rétt fyrir kosningar 1998 skrifaði þáverandi bæjarstjóri undir nýja lóðarleigusamninga til 50 ára við Kaupfélagið, þetta gerði hann án þess að deiliskipulag svæðisins lægi fyrir. Athygli vekur að bæjarstjórinn skrifar undir en ekki byggingafulltrúinn eins og venja er.

Fyrir u.þ.b. 4 árum þegar miðbæjarskipulag var í vinnslu var ákveðið að nýta rétt sem svohljóðandi 12. grein lóðarsamnings gefur, „Hvenær sem bæjarstjórn telur þörf á að taka lóðirnar í sínar hendur að nokkru eða öllu leyti er leigutaka skylt að láta leigurétt sinn af hendi …" Samkvæmt greininni var seinnihluta árs 2007 óskað eftir því við kaupfélagið að Mosfellsbær fengi lóðirnar aftur gegn endurgjaldi. Þar er saga sem ég hvet bæjarbúa til þess að kynna sér.

Í ágúst 2008 byrja kaupfélagsmenn að tala um að Mosfellsbær „kaupi allan pakkann af þeim". Stuttu seinna kom í ljós að samvinnumennirnir höfðu þinglýst 200 milljóna skuldabréfi á lóðirnar, skuldabréfi sem þessir hugsjónamenn hafa fram til þessa dags ekki viljað segja nokkrum manni hver á. Ekki þarf mikinn leikjasérfræðing til þess að láta sér detta í hug að þarna hafi menn verið að styrkja stöðu sína í samningaviðræðum við bæinn, samningaviðræðum sem þessir forsvarsmenn lokaða kaupfélagsins ætla að græða vel á.

Þessum samskiptum kaupfélagsmanna og bæjarins lauk í raun þann 1. júlí 2009, þá mættu þeir á fund fulltrúa bæjarins og kröfðust 500 milljóna fyrir lóðaréttindin.

Kemur þá að hlut sérlegs fulltrúa gagnsæis, hófsemi og heiðarleika, Marteins Magnússonar bæjarfulltrúa. Við lestur fundargerða og eftir samtöl við fólk tel ég ljóst að hann hafi lagt sig í alla þá króka og alla þá kima sem finnanlegir eru til þess að efla stöðu „samvinnumannanna" gegn hagsmunum bæjarbúa. Þar hefur hann í krafti setu í nefndum bæjarins gengið grímulaust erinda félaga sinna framsóknarmannanna í Kaupfélaginu, hvet ég bæjarbúa til þess að lesa fundargerðir og önnur gögn sem hægt er að nálgast. Er ég þess fullviss að niðurstaða ykkar verður ekki ólík minni, það er að Marteinn Magnússon er í skjóli setu sinnar í bæjarstjórn að hjálpa gróðapungum sem telja sig eiga Kaupfélagið, gróðapungum sem greinilega láta sig samfélagið engu skipta en ætla bara að græða.

Höfundur er frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.






Skoðun

Sjá meira


×