Viðskipti innlent

Tilkynning um fjárfestingu á Íslandi hækkaði hlutabréfin um 24%

Frá undirritun samningsins.
Frá undirritun samningsins.

Hlutabréf í kanadíska fyrirtækinu Timminco hækkuðu um 24 prósent eftir að tilkynnt var um áform þess um kísilmálmverksmiðju í Þorlákshöfn. Stefnt er að því að endanlegar ákvarðanir verði teknar fyrir 15. apríl, innan tveggja mánaða.

Skrifað var undir samningsramma um verkefnið í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur í fyrradag. Eftir að tíðindin höfðu verið tilkynnt í kauphöllinni í Toronto tóku hlutabréf í Timminco að rjúka upp í miklum viðskiptum og höfðu í lok dags hækkað um 24,3 prósent.

Kanadískir fjölmiðlar rekja þessa miklu hækkun til tilkynningar félagsins um að það hyggist fjárfesta á Íslandi. Þar segist félagið stefna að því að framleiða 50 þúsund tonn árlega af kísilmálmi í sveitarfélaginu Ölfusi og gera samning til 20 ára um kaup á 85 megavöttum raforku frá jarðhitavirkjun í Hverahlíð. Stefnt sé að því að framleiðslan hefjist árið 2013.

Vitnað er í stjórnarformann og forstjóra Timminco, doktor Heinz Schimmelbusch, sem segir að framleiðslugeta kísilmálmverksmiðju félagsins í Becancour í Kanada sé nú fullnýtt, og þar sem markaður fyrir kísilmálm haldi áfram að vaxa þurfi fyrirtækið að auka framleiðslugetu sína. Það sé bæði til að sinna þörfum hefðbundinna viðskiptavina í efna- og áliðnaði en einnig til að styrkja markaði sína fyrir kísil í sólarsellur. Fram kemur að stefnt sé að því að undirrita bindandi orkusamning eigi síðar en 15. apríl næstkomandi.

Þótt Timminco sé skráð í Kanada er það hluti hollensks félags, AMG.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×